Íslenski boltinn

Ragna Lóa tekur við kvennaliði Fylkis

Frá blaðamannafundinum í dag.
Frá blaðamannafundinum í dag. mynd/fylkir
Ragna Lóa Stefánsdóttir hefur verið ráðinn sem nýr þjálfari meistaraflokks kvenna. Aðstoðarmaður hennar verður Kjartan Stefánsson sem stýrði liðinu í síðustu sex leikjum liðsins á síðustu leiktíð.

Þá mun Ásgrímur Helgi Einarsson sem var aðstoðarþjálfari meistaraflokks á síðustu leiktíð halda áfram sem þjálfari 2. flokks kvenna.

Allir samningarnir eru til þriggja ára. Fylkir féll úr Pepsi deild kvenna í ár eftir sjö ára samfellda veru í efstu deild og er ráðning nýs þjálfara fyrsta skrefið í átt að því markmiði að koma liðinu strax upp um deild á næsta tímabili.

Ragna Lóa Stefánsdóttir er 46 ára og á að baki langan feril í knattspyrnunni. Hún á að baki 150 leiki í efstu deild fyrir ÍA, Stjörnuna, Val og KR. Þá lék hún 35 landsleiki fyrir Íslands hönd á árunum 1985-1997, þar af 3 leiki sem fyrirliði. Ragna Lóa er menntaður leikskólakennari og hefur lokið 6. stigi í þjálfaramenntun KSÍ.

Kjartan Stefánsson er 40 ára og hefur verið þjálfari í yngri flokkum Fylkis um langa hríð, lengst af með 3.flokk karla en þjálfar nú 5. flokk karla. Kjartan þjálfaði meistaraflokk Fylkis í 1.deild kvenna árin 1998 og 1999. Kjartan starfar sem íþróttakennari í Árbæjarskóla og hefur lokið 5. stigi í þjálfaramenntun KSÍ.

Ásgrímur Helgi Einarsson er 43 ára með mikla reynslu af þjálfun, sérstaklega í kvennaboltanum. Hann hefur stýrt meistarflokki kvenna hjá Þrótti Neskaupstað, FH og Aftureldingu, auk þess að hafa bæði stýrt karla og kvennaliði Álftaness. Ásgrímur Helgi er með KSÍ A þjálfaragráðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×