Innlent

Hvetur fólk til að mótmæla breytingum á Hjartagarðinum

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Hjartagarðurinn er samkomustaður fólks af öllum stéttum og þar hefur menningin blómstrað í sumar segir tónlistarkona sem gagnrýnir nýtt deiliskipulag Reykjavíkurborgar sem gerir ráð fyrir verslunum og íbúðum á svæðinu.

Tanja Pollock, tónlistarkona, fékk ásamt nokkrum félögum styrk frá borginni í vor til að gera garðinn upp. Hún segir hann hafa verið í algerri niðurníðslu.

„Þetta hefur bara komið fólkinu saman. Ekki bara sem borgarbúar og almenningur heldur sem samfélag. Af öllum stéttum, 10 ára krakkar upp í nírætt fólk. Fólk með bindi og fólk sem er bara úti á götu. Þetta var alveg laust við alla fordóma. Við áttum það bara sameiginlegt að njóta þess að vera á fallegum stað í fallegu skjóli í þessu umhverfi," segir Tanja.

Nýtt deiliskipulag fyrir svæðið var kynnt í vikunni en samkvæmt því mun Hjartagarðurinn breytast. Útisvæði minnkar til að mynda og á svæðinu rísa verslanir, íbúðir og jafnvel hótel.

„Við vissum að það myndi eitthvað vera gert. Húsin eru ónýt sem liggja hérna við Hverfisgötu. En okkur var sagt að þetta yrði gert í samráði við borgarbúa og við okkur," segir Tanja en það hafi ekki verið gert.

Hún telur að menningunni sé misþyrmt með breytingunum. „Það er fólkið sem skapar menningu, ekki byggingar," segir Tanja.

Enn er hægt að skila inn athugasemdum til skipulagsráðs borgarinnar. Tanja og félagar áætla að skila inn tillögu að breytingum og hvetur hún almenning til að gera slíkt hið sama.

„Ég vil bara fá sem flesta sem þykir vænt um garðinn til að tjá sig. Segja hvernig þeim líður með þetta. Við getum gert þetta. Við höfum lagt mikinn tíma, orku, vinnu og ást í þennan stað. Og það er leiðinlegt að sjá það bara hverfa," segir Tanja.


Tengdar fréttir

Hjartagarðurinn tekur breytingum

Minna verður byggt á Hljómalindarreitnum við Laugarveginn en áður var gert ráð fyrir og færri hús rifin. Þetta segir formaður skipulagsráðs borgarinnar sem kynnti nýtt skipulag svæðisins í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×