Lífið

Lady Gaga og Julian Assange eyddu kvöldi saman

Lady Gaga og Julian Assange.
Lady Gaga og Julian Assange.
Stórstjarnan Lady Gaga, sem mun taka á móti LENNON/ONO friðarverðlaunum í Hörpu í dag, hitti stofnanda WikiLeaks um helgina, skömmu eftir að hún hafði kynnt nýtt ilmvatn í versluninni Harrods í Lundúnum.

Það vill svo til að sendiráð Ekvadors var hinu megin við götuna þar sem Gaga kynnti nýja ilmvatnið sitt. Dívan mætti klukkustund of seint á eigin kynningu og eftir nokkra stund fór hún yfir götuna til Julian Assange, sem dvelur í sendiráðinu. Eyddu þau svo kvöldinu saman.

Samkvæmt breskum fjölmiðlum borðuðu þau saman en ekkert hefur verið gefið út hvað þau ræddu þær fimm klukkustundir sem þau dvöldu saman í sendiráðinu.

Eins og kunnugt er þá er Julian Assange í stofufangelsi í sendiráðinu vegna framsalskröfu sænskra stjórnvalda sem breskir dómstólar féllust á fyrr á árinu vegna kæra um kynferðisbrot. Assange hefur fengið hæli í Ekvador en gallinn er auðvitað sá að til þess að komast þangað þarf hann fyrst að stíga á breska grund. Og þá verður hann umsvifalaust handtekinn.

Breskir fjölmiðlar velta mikið fyrir sér heimsókn Lady Gaga til Assange, sem hefur ekki verið álitinn hluti af poppmenningu heimsins. En eins og Íslendingar vita þá dvaldi Assange nokkuð lengi hér á landi, og má því vera að Lady Gaga hafi verið að spjalla við hann um land og þjóð.

Tónlistarkonan mun taka á móti verðlaununum klukkan tvö í Hörpunni í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.