Innlent

Malbikið að koma til Drangsness

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá vegagerðinni í botni Steingrímsfjarðar.
Frá vegagerðinni í botni Steingrímsfjarðar. Mynd/Baldur Hrafnkell Jónsson
Íbúar Drangsness sjá fram á að tengjast þjóðvegakerfinu með bundnu slitlagi. Síðasti malarkaflinn heim til þeirra heyrir brátt sögunni til. Vegagerðin er í botni Steingrímsfjarðar og hófst í fyrravetur með smíði 40 metra langrar brúar yfir Staðará, sem byggingarfélagið Eykt tók að sér fyrir 85 milljónir króna. Í haust hófst svo lagning þriggja kílómetra langs vegarkafla, sem Borgarverk annast fyrir um 160 milljónir króna. Ellefu manns vinna að vegagerðinni, átta frá Borgarverki og þrír frá undirverktaka við malarvinnslu, og koma starfsmennirnir frá ýmsum stöðum á landinu, eins og Kristinn Sigvaldason, verkstjóri hjá Borgarverki, lýsir í viðtali í fréttum Stöðvar 2. Þeir sem mest munu aka veginn nýja eru íbúar Drangsness, Bjarnarfjarðar og Árneshrepps, og þeir fylgjast af athygli með framvindu verksins og láta þakklæti sitt í ljós með heimsóknum, að sögn Kristins. Vegarkaflinn verður væntanlega tilbúinn til notkunar síðla næsta sumars og þá verða aðeins fjórir þéttbýlisstaðir eftir á Íslandi án malbikstengingar við þjóðvegakerfið, einn á Austurlandi; Borgarfjörður, - og svo þorpin þrjú á sunnanverðum Vestfjörðum; Patreksfjörður, Tálknafjörður og Bíldudalur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×