Óþægilegur samfélagsspegill Arndís Þórarinsdóttir skrifar 7. nóvember 2012 11:29 Sigrún Edda dregur upp kvenvarginn Indíönu af næmni. Gullregn. Borgarleikhúsið. Höfundur og leikstjóri: Ragnar Bragason. Leikmynd: Hálfdán Pedersen. Búningar: Helga Rós V. Hannam. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist: Mugison. Leikarar: Sigrún Edda Björnsdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Halldóra Geirharðsdóttir, Brynhildur Guðjónsdóttir og Halldór Gylfason. Ragnari Bragasyni lætur vel að skapa sérlega ógeðfelldar persónur og bætist nú fals-öryrkinn Indíana Jónsdóttir, konan sem leikverkið Gullregn hverfist um, í hóp þeirra allra óyndislegustu. Það skín í gegnum persónusköpunina hversu mjög teymið hefur notið þess að draga fram allt hið ómerkilegasta úr samtímanum, eiginleika sem er freistandi að kalla séríslenska en eru auðvitað bara sammannlegir. Indíana er sérhlífin, tilætlunarsöm, ráðrík, fordómafull og sjálfmiðuð með eindæmum, þambar diet kók, flatmagar í Lazyboy og lifir fyrir árlegu Spánarferðina sína - sem hún lætur Tryggingastofnun borga. Indíana er leikin af Sigrúnu Eddu Björnsdóttur, sem er á sviðinu nálega allan tímann. Sigrún Edda dregur þennan kvenvarg upp af næmni, hún skiptir snarlega um viðmót eftir því hvernig vindurinn blæs og gerir það fullkomlega trúverðugt að konan sé svona illa innréttuð. Nágrannakonan Jóhanna er illa farin eftir slys og spaugilega aumkunarverð í tilburðum sínum til að lifa af. Hún er Indíönu nauðsynleg stoð og stytta en fær lítið að launum fyrir erfiðið. Halldóra Geirharðsdóttir lék Jóhönnu, gerði það af mikilli alúð, kitlaði hláturtaugar og vakti samúð í senn. Heilsufarsblekkingar Indíönu ná líka til sonar hennar, Unnars, sem hún hefur alla tíð alið upp sem sjúkling, og ganga lygar hennar svo langt að hann hálftrúir því sjálfur að hann sé haldinn ýmsum kvillum. Hallgrímur Ólafsson er í hlutverki hans og ég man varla eftir að hafa séð Hallgrím gera betur, hann dregur áhorfendur með sér upp og niður tilfinningaskalann eftir því sem þroskasögu Unnars vindur fram. Verkið fjallar um það þegar tilveru Indíönu er ógnað við það að sonurinn, kominn hátt á fertugsaldur, fer að sýna óþægilega sjálfstæðistilburði. Í ofanálag kynnist hann konu sem fær hann til að efast um allt það sem móðir hans hefur kennt honum. Hin fróma Daniela er pólskættuð stúlka sem vinnur á elliheimili og starfar í björgunarsveit og er raunar eina manneskjan með viti meðal hinna úrkynjuðu Íslendinga. Fyrir hlé eru aðstæður teiknaðar upp en eftir hlé fer að færast fjör í leikinn og ljóst að einhver mun bíða algjöran ósigur. Í þessum síðari hluta fór verkið aðeins úr böndunum, harmleikurinn hefði sennilega vaxið við að vera smærri í sniðum, en samt er innistæða fyrir minnisstæðum endalokunum. Leikmynd Hálfdáns Pedersens er ofurraunsæisleg, ótrúlega nostursamlega unnin og segir áhorfendum drjúgt um húsmóðurina áður en leikurinn hefst. Sami bragur er á afbragðsgóðum búningum Helgu Rósar V. Hannam. Mugison sér um tónlistina og gegnir hljóðmyndin ríku hlutverki í verkinu, en hljóðheimur blokkaríbúðar er skapaður á sviðinu. Gullregn á það sameiginlegt með fyrri verkum Ragnars Bragasonar, eins og Vakta-seríunum, að vera bráðfyndið en er samt svo einlægt í annarleik sínum að það er hálfóþægilegt að hlæja að því. Það fjallar um alvarleg samfélagsmein, en líka um það hvernig mennskan sjálf krypplast og afbakast við vissar aðstæður. Niðurstaða: Ragnar Bragason stendur undir væntingum aðdáenda sinna með flottu teymi listamanna. Húmor og sársauki í bland. Gagnrýni Mest lesið Vængir, bjór og lófaklapp þegar Kaninn var forsýndur Lífið Flaug alla leið frá Ástralíu til að heimsækja Eiðistorg Lífið Jay Leno illa leikinn og með lepp Lífið Óhugnanlegt neyðarlínusímtal: „Hann var bara dáinn“ Lífið Frumsýning á Vísi: Villi Vill fer á kostum í tónlistarmyndbandi Luigi Tónlist „Þetta var það erfitt, að við vorum öll dofin“ Lífið Fréttatían: Gömul mannshvörf, rukkanir og gos Lífið Datt í miðri sýningu á Ellý: „Eitt lélegasta fall leikhússögunnar“ Lífið Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Gagnrýni Eitt fallegasta hús landsins tilbúið Lífið Fleiri fréttir Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira
Gullregn. Borgarleikhúsið. Höfundur og leikstjóri: Ragnar Bragason. Leikmynd: Hálfdán Pedersen. Búningar: Helga Rós V. Hannam. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist: Mugison. Leikarar: Sigrún Edda Björnsdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Halldóra Geirharðsdóttir, Brynhildur Guðjónsdóttir og Halldór Gylfason. Ragnari Bragasyni lætur vel að skapa sérlega ógeðfelldar persónur og bætist nú fals-öryrkinn Indíana Jónsdóttir, konan sem leikverkið Gullregn hverfist um, í hóp þeirra allra óyndislegustu. Það skín í gegnum persónusköpunina hversu mjög teymið hefur notið þess að draga fram allt hið ómerkilegasta úr samtímanum, eiginleika sem er freistandi að kalla séríslenska en eru auðvitað bara sammannlegir. Indíana er sérhlífin, tilætlunarsöm, ráðrík, fordómafull og sjálfmiðuð með eindæmum, þambar diet kók, flatmagar í Lazyboy og lifir fyrir árlegu Spánarferðina sína - sem hún lætur Tryggingastofnun borga. Indíana er leikin af Sigrúnu Eddu Björnsdóttur, sem er á sviðinu nálega allan tímann. Sigrún Edda dregur þennan kvenvarg upp af næmni, hún skiptir snarlega um viðmót eftir því hvernig vindurinn blæs og gerir það fullkomlega trúverðugt að konan sé svona illa innréttuð. Nágrannakonan Jóhanna er illa farin eftir slys og spaugilega aumkunarverð í tilburðum sínum til að lifa af. Hún er Indíönu nauðsynleg stoð og stytta en fær lítið að launum fyrir erfiðið. Halldóra Geirharðsdóttir lék Jóhönnu, gerði það af mikilli alúð, kitlaði hláturtaugar og vakti samúð í senn. Heilsufarsblekkingar Indíönu ná líka til sonar hennar, Unnars, sem hún hefur alla tíð alið upp sem sjúkling, og ganga lygar hennar svo langt að hann hálftrúir því sjálfur að hann sé haldinn ýmsum kvillum. Hallgrímur Ólafsson er í hlutverki hans og ég man varla eftir að hafa séð Hallgrím gera betur, hann dregur áhorfendur með sér upp og niður tilfinningaskalann eftir því sem þroskasögu Unnars vindur fram. Verkið fjallar um það þegar tilveru Indíönu er ógnað við það að sonurinn, kominn hátt á fertugsaldur, fer að sýna óþægilega sjálfstæðistilburði. Í ofanálag kynnist hann konu sem fær hann til að efast um allt það sem móðir hans hefur kennt honum. Hin fróma Daniela er pólskættuð stúlka sem vinnur á elliheimili og starfar í björgunarsveit og er raunar eina manneskjan með viti meðal hinna úrkynjuðu Íslendinga. Fyrir hlé eru aðstæður teiknaðar upp en eftir hlé fer að færast fjör í leikinn og ljóst að einhver mun bíða algjöran ósigur. Í þessum síðari hluta fór verkið aðeins úr böndunum, harmleikurinn hefði sennilega vaxið við að vera smærri í sniðum, en samt er innistæða fyrir minnisstæðum endalokunum. Leikmynd Hálfdáns Pedersens er ofurraunsæisleg, ótrúlega nostursamlega unnin og segir áhorfendum drjúgt um húsmóðurina áður en leikurinn hefst. Sami bragur er á afbragðsgóðum búningum Helgu Rósar V. Hannam. Mugison sér um tónlistina og gegnir hljóðmyndin ríku hlutverki í verkinu, en hljóðheimur blokkaríbúðar er skapaður á sviðinu. Gullregn á það sameiginlegt með fyrri verkum Ragnars Bragasonar, eins og Vakta-seríunum, að vera bráðfyndið en er samt svo einlægt í annarleik sínum að það er hálfóþægilegt að hlæja að því. Það fjallar um alvarleg samfélagsmein, en líka um það hvernig mennskan sjálf krypplast og afbakast við vissar aðstæður. Niðurstaða: Ragnar Bragason stendur undir væntingum aðdáenda sinna með flottu teymi listamanna. Húmor og sársauki í bland.
Gagnrýni Mest lesið Vængir, bjór og lófaklapp þegar Kaninn var forsýndur Lífið Flaug alla leið frá Ástralíu til að heimsækja Eiðistorg Lífið Jay Leno illa leikinn og með lepp Lífið Óhugnanlegt neyðarlínusímtal: „Hann var bara dáinn“ Lífið Frumsýning á Vísi: Villi Vill fer á kostum í tónlistarmyndbandi Luigi Tónlist „Þetta var það erfitt, að við vorum öll dofin“ Lífið Fréttatían: Gömul mannshvörf, rukkanir og gos Lífið Datt í miðri sýningu á Ellý: „Eitt lélegasta fall leikhússögunnar“ Lífið Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Gagnrýni Eitt fallegasta hús landsins tilbúið Lífið Fleiri fréttir Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira