Ekki er búið að meta það tjón sem varð á gámasvæði Eimskips í veðurofsanum í gær. Nokkrir tugir gáma fuku um koll á svæðinu.
Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, sagði í samtali við fréttastofu að gámarnir hefðu flestir verið tómir og því væru þeir sjálfir helsta tjónið.
Ólafur segir að gámasvæðið hafi verið tryggt þegar veður tók að lægja í gær og að lágmarksstarfsemi sé á svæðinu í dag, líkt og venja er á laugardögum.
Þá munu starfsmenn Eimskips meta tjónið á mánudaginn.

