Körfubolti

Lokaskot Helenu geigaði og Englarnir töpuðu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Helena í leik með Englunum frá Kosice.
Helena í leik með Englunum frá Kosice.
Helena Sverrisdóttir og félagar í Good Angels Kosice biðu í gærkvöldi lægri hlut á útivelli gegn tyrkneska félaginu Fenerbahce í Meistaradeild Evrópu í körfubolta.

Lokatölurnar urðu 93-91 tyrkneska liðinu í hag sem virtust, að því er Karfan.is greinir frá, hafa leikinn í hendi sér þegar ein og hálf mínúta lifði leiks. Helena skoraði meðal annars þriggja stiga körfu og gestirnir minnkuðu muninn úr átta stigum í tvö. Í lokasókninni skaut Helena aftur fyrir utan þriggja stiga línuna og freistaði þess að tryggja Englunum sigur. Skotið geigaði hins vegar og Tyrkirnir önduðu léttar.

Helena lék í 21 mínútu í leiknum. Hún skoraði ellefu stig ásamt því að taka fjögur fráköst, gefa eina stoðsendingu og stela einum bolta.

Englarnir eru í 3. sæti B-riðils Meistaradeildar af sjö liðum. Liðið hefur unnið þrjá leiki en tapað tveimur líkt og tvö önnur lið.

Staðan

1. Fenerbahce 4/1

2. Famila Schio 4/1

3. Good Angels Kosice 3/2

4. Nadezhda Orenburg 3/2

5. Municipal Targoviste 3/2

6. Uniqa Euroleasing Sopron 1/5

7. Arras Pays D'Artois 0/5




Fleiri fréttir

Sjá meira


×