Lárus Ingi Magnússon er hættur sem aðstoðarþjálfari Njarðvíkur í Dominos-deild kvenna í körfubolta en þetta kemur fram á karfan.is. Njarðvík varð bæði Íslands- og bikarmeistari á síðasta ári þegar Lárus Ingi aðstoðaði Sverri Þór Sverrisson en hann hefur aðstoðað spilandi þjálfarann Lele Hardy í vetur.
„Eftir umhugsun þá tók ég þá ákvörðun á mánudag að leitast eftir því að samningi mínum við deildina yrði rift. Ástæðan er margþætt en sú helsta er að það eru samskiptaörðuleikar í hópnum milli mín og einstakra leikmanna og ákveðið metnaðarleysi hjá þeim sem ég vil ekki hanga á. Ég vil liðinu einfaldlega betra en það." sagði Lárus Ingi í samtali við Karfan.is
Njarðvíkurliðið hefur átt erfitt uppdráttar í vetur en liðið missti marga lykilmenn frá því í fyrra og er að mestu skipað mjög ungum stelpum.
„Stærsti hluti hópsins eru frábærar stelpur sem erfitt er að yfirgefa en það þarf ekki mörg skemmd epli til að skemma fyrir heildinni. Þetta eru 3 mannsekur sem gera það að verkum að ég stíg til hliðar," segir Lárus Ingi í fyrrnefndu viðtali en það má sjá allt viðtalið við hann með því að smella hér.
