Íslenski boltinn

Rósa og Telma í raðir Mosfellinga

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rósa Hauksdóttir ásamt John Henry Andrews, þjálfara Aftureldingar.
Rósa Hauksdóttir ásamt John Henry Andrews, þjálfara Aftureldingar. Mynd/Afturelding
Miðjumaðurinn Rósa Hauksdóttir, sem leikið hefur með Fram undanfarin tvö ár, er gengin í raðir Aftureldingar. Þá hefur Telma Hjaltalín Þrastardóttir snúið á heimaslóðir eftir dvöl hjá Val.

Rósa er uppalin hjá Val en spilaði með KR á árunum 2006-2008. Krossbandsslit hélt henni frá keppni í langan tíma en undanfarin tvö ár spilaði hún með liði Fram í 1. deild. Hún var markahæsti leikmaður liðsins í sumar með níu mörk en Fram beið lægri hlut í umspili um sæti í efstu deild.

Rósa er annar leikmaðurinn sem Afturelding fær til liðs við sig á þremur dögum. Hin eldfljóta Telma Hjaltalín Þrastardóttir samdi nýverið við uppeldisfélag sitt. Telma spilaði fjórtán leiki með Valskonum síðastliðið sumar, skoraði fjögur mörk, en í flestum þeirra kom hún inná sem varamaður.

Telma, sem er fædd árið 1995, á að baki 36 landsleiki með með 17 ára og 19 ára landsliðum Íslands.

Afturelding hafnaði í sjöunda sæti efstu deildar kvenna síðastliðið sumar. Liðið ætlar sér að styrkja sig enn frekar að því er fram kemur á heimasíðu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×