Íslenski boltinn

Ísland eina Evrópuþjóðin sem sýnir kvennaleik í hverri umferð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stjarnan og Þór/KA börðust um Íslandsmeistaratitilinn síðasta sumar. Norðankonur höfðu betur.
Stjarnan og Þór/KA börðust um Íslandsmeistaratitilinn síðasta sumar. Norðankonur höfðu betur. Mynd/Valli
Evrópska knattspyrnusambandið UEFA hefur sent sambandsaðilum sínum ítarlega tölfræðiskýrslu sem unnin var um kvennaknattspyrnu í Evrópu. Samböndin, þar á meðal Knattspyrnusamband Íslands, svöruðu ítarlegum spurningalistum auk þess sem fulltrúar UEFA sóttu sambönd allra landanna heim.

Ísland er eina þjóð Evrópu sem sýndi beint frá hverri umferð í deildarkeppni í kvennaflokki árið 2012. Stöð 2 Sport sýndi leik í beinni útsendingu frá efstu deild kvenna í hverri umferð síðastliðið sumar. Var það í fyrsta skipti sem það hefur verið gert hér á landi.

Aðeins 20 lönd sýna beint frá leikjum A-landsliða kvenna í sínu landi. Í fjórum löndum (Íslandi, Frakklandi, Slóveníu og San Marínó) er sýnt reglulega frá kvennaknattspyrnu (landslið og félagslið). Í fjórtán löndum er aldrei sýnt frá kvennaknattspyrnu. Fjórðungur landa sýnir stærstu leiki í deildarkeppni í sjónvarpi.

Á Íslandi eru skráðir fleiri iðkendur kvenna en í löndum á borð við Norður-Írland, Wales, Skotland og Portúgal. Þá er fjölgun iðkenda í kvennaflokkum hæg en stöðug á milli ár. Iðkendum hefur fjölgað um 4% á fimm árum.

Frekari punkta úr skýrslunni, sem KSÍ mun birta á næstunni á vef sínum, má sjá með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×