Erlent

Myrti bekk móður sinnar - svartklæddur og vopnaður hríðskotariffli

Adam Lanza sem myrti 26 nemendur og kennara í grunnskólanum Sandy Hook í bænum Newtown í Connecticut í Bandaríkjum fyrr í dag, er grunaður um aðild að einu morði til viðbótar.



Lanza lést á vettvangi í Sandy Hook. Ekki hefur fengist staðfest hvort að lögreglumenn hafi fellt hann eða hvort að hann hafi svipt sig lífi.



Alls létust 20 börn, flest yngri en tíu ára, í árásinni. Þar af létust tvö börn á sjúkrahúsi stuttu eftir skotárásina. Sex kennarar og starfsmenn Sandy Hook féllu í árásinni. Er þetta eitt versta fjöldamorð í sögu Bandaríkjanna.



Eftirlifendur árásarinnar segja að Lanza hafa gengið inn í kennslustofu í Sandy Hook og skotið kennslukonu til bana áður en hann hóf að skjóta á hóp barna sem var í stofunni. Seinna meir kom í ljós að kennarinn var móðir Lanza.



Grunur leikur á að Lanza hafi orðið öðrum manni að bana annars staðar í Newtown.



Lanza var svartklæddur þegar hann gekk inn í Sandy Hook á fimmta tímanum í dag. Hann var með grímu fyrir andliti sínu og vopnaður tveimur hálfsjálfvirkum skammbyssum sem og öflugum .223 kalíbera hríðskotariffli.



Fjölmiðlar vestanhafs og víðar greindu frá því fyrr í kvöld að Ryan Lanza lægi undir grun í um að eiga aðild að fjöldamorðinu og var ljósmynd af honum birt á helstu sjónvarpsstöðvum í Bandaríkjunum. Stuttu seinna kom í ljós að Ryan var á lífi og að tengsl hans við morðin væru aðeins þau að vera tengdur Adam fjölskylduböndum. Samkvæmt fréttaveitunni AP var Ryan yfirheyrður af lögreglunni í Newtown í kvöld.



Minningarathöfn verður haldin í Newtown á miðnætti í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×