Erlent

Putin vill væga dóma yfir Pussy Riot

Vladimir Putin forseti Rússlands segir að stúkurnar þrjár í pönkhljómsveitinni Pussy Riot eigi ekki að hljóta þunga dóma fyrir mótmælaaðgerðir þeirra gegn sér.

Mál þetta hefur vakið mikla athygli utan Rússlands en nú standa réttarhöld yfir gegn hljómsveitinni og eru þær hafðar í búri í dómsalnum meðan á þeim stendur. Einnig hafa miklar deiljur og umræða orðið um málið í Rússlandi.

Putin sem nú er staddur í óopinberri heimsókn í London til að fylgjast með Ólympíuleikunum ræddi þar við fréttamenn um málið. Hann segir að ekkert gott hafi komið út úr mótmælaaðgerðum Pussy Riot en hann telji samt að ekki eigi að dæma þær of hart fyrir aðgerðirnar.

Stúlkurnar þrjár hafa verið í fangelsi frá því í febrúar s.l. þegar þær stormuðu upp að altarinu í dómkirkju í Moskvu og hrópuðu "María mey hrektu Pútin á brott". Þetta fór fyrir brjóstið á forráðamönnum rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar sem kærðu stúlkurnar fyrir guðlast og krefjast þungra dóma yfir þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×