Enski boltinn

Liverpool deildabikarmeistari eftir vítakeppni

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Kuyt og Suarez fagna marki þess fyrr nefnda.
Kuyt og Suarez fagna marki þess fyrr nefnda. MYND:NORDIC PHOTOS/GETTY IMAGES
Liverpool tryggði sér deildarbikarmeistaratitilinn með því að leggja Cardiff af velli í vítaspyrnukeppni. Staðan var jöfn 1-1 eftir venjulegan leiktíma og enn var jafnt, 2-2, að lokinni framlengingu. Liverpool skoraði úr þremur af fimm vítum sínum á meðan Cardiff nýtti aðeins tvö og því var það Liverpool sem fagnaði í leikslok.

Joe Mason skoraði fyrsta mark leiksins á 18. mínútu og Martin Skrtel jafnaði metin á 59. mínútu og þar við sat þrátt fyrir að Liverpool fengi urmul af færum til að tryggja sér sigur og því þurfti að framlengja.

Allt benti til þess að Dirk Kuyt væri að tryggja Liverpool sigur í framlengingunni þegar hann skoraði á 108. mínútu en miðvörðurinn Ben Turner sá til þess að leikurinn færi í vítaspyrnukeppni þegar hann skoraði af stuttu færi á 118. mínútu.

Cardiff sigraði tvær vítaspyrnukeppnir á leið sinni í úrslitaleikinn en örþreyttir leikmenn liðsins áttu í miklum erfiðleikum frá vítapunktinum í kvöld og klúðruðu þremur vítum af fimm á meðan Liverpool skoraði úr þremur þrátt fyrir tvær af fyrstu þrem færu forgörðum.

Glen Johnson skoraði úr fimmta víti Liverpool og það kom í hlut Anthony Gerrard skjóta framhjá úr síðasta víti Cardiff.

Liverpool landaði þar með fyrsta titli félagsins frá því árið 2006 þegar liðið sigraði enska bikarinn. Kenny Dalglish hefur þar með unnið báða bikarana og deildina á Englandi, bæði sem leikmaður og þjálfari en það hefur enginn annar afrekað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×