Enski boltinn

Ferguson: Norwich átti stig skilið í dag

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ferguson þekkir það að vinna leiki í blálokin.
Ferguson þekkir það að vinna leiki í blálokin. Nordic Photos / Getty Images
Sir Alex Ferguson var hæstánægður með sigur sinna manna á Norwich í ensku úrvalsdeildinni í dag. Hann viðurkenndi þó að heimamenn hefðu átt skilið stig.

Paul Scholes kom United yfir með skallamarki í fyrri hálfleik. Grant Holt jafnaði metin með fallegu marki skömmu fyrir leikslok en Norwich hafði síst verið lakari aðilinn í leiknum. Ryan Giggs skoraði í viðbótartíma og tryggði ensku meisturunum stigin þrjú.

„Norwich átti skilið stig í dag. Markið sem þeir skoruðu var stórkostlegt en frá þeim tímapunkti þekktirðu Manchester United," sagði Ferguson sem taldi úrslitin gefa sínu liði byr undir báða vængi í titilbaráttunni.

„Það vita allir að við gefumst aldrei upp, alveg sama hver andstæðingurinn er. Það vita allir að það þarf að berjast allt til enda," sagði Skotinn.

Landi hans, Paul Lambert knattspyrnustjóri Norwich, var að vonum sár en stoltur af sínum mönnum.

„Við vorum frábærir en svona gerist gegn United. Þeir hafa gert þetta ár eftir ár. Við áttum lítið eftir á tankinum í lokin en gáfum allt sem við áttum. Við þurfum ekki að skammast okkar, við sýndum flotta frammistöðu," sagði Lambert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×