Lífið

Hörð barátta um bestu mottuna

Friðrik Ingvar Ingimundarson þótti vera með fallegustu mottuna í fyrra. Allt stefnir í harða keppni aftur í ár að sögn Ragnars Páls Steinssonar.fréttablaðið/vilhelm
Friðrik Ingvar Ingimundarson þótti vera með fallegustu mottuna í fyrra. Allt stefnir í harða keppni aftur í ár að sögn Ragnars Páls Steinssonar.fréttablaðið/vilhelm
Tom Selleck-mottukeppni fer fram á skemmtistaðnum Boston í kvöld þar sem karlmenn munu keppa um titilinn Flottasta motta landsins. Keppnin er haldin í tengslum við Mottumars Krabbameinsfélagsins og hefur átt miklum vinsældum að fagna undanfarin ár.

Ragnar Páll Steinsson, eða Raggi leðja eins og hann er betur þekktur, skipuleggur keppnina og er einnig fyrrum keppandi. „Það eru miklu fleiri karlmenn sem bera mottur og skegg í dag en þegar við byrjuðum með keppnina fyrir nokkrum árum síðan, þá þótti þetta bara asnalegt.”

Um tíu manns hafa þegar skráð sig til leiks en enn er opið fyrir skráningar fyrir þá óákveðnustu. Páll Óskar Hjálmtýsson situr í dómnefnd í ár ásamt fjölmiðlamanninum Andra Frey Viðarssyni og verður Dóri DNA kynnir kvöldsins.

Ragnar segir allt stefna í harða keppni enda skarta keppendurnir allir voldugum mottum. „Ég á eiginlega ekki til orð, þetta eru svo flottar mottur. Ég vil þó taka fram að þetta er engin fegðurðarsamkeppni og því mega menn ekki vera tregir við að skrá sig til þátttöku. Það er einfaldlega verið að fagna því að menn fái hár á efri vörina.”

Veitt eru verðlaun fyrir þrjár fallegustu motturnar en einnig hlýtur vinsælasti keppandinn verðlaun. Að lokum verður besti hýjungurinn verðlaunaður sem og flottasta Thule-mottan. Keppnin hefst klukkan 21 á Boston í kvöld.-sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.