Viðskipti innlent

Upptökukrafan á Baldur lækkuð um 18 milljónir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Karl Axelsson th. og Baldur Guðlaugsson umbjóðandi hans.
Karl Axelsson th. og Baldur Guðlaugsson umbjóðandi hans.
Peningarnir sem gerðir verða upptækir á bankareikningum Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, var lækkuð umtalsvert í Hæstaréttardómnum.

Dómurinn dæmdi í dag að 175 milljónir króna skyldu gerðar upptækar um leið og Baldur var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir innherjasvik. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði aftur á móti komist að þeirri niðurstöðu að 193 milljónir skyldu gerðar upptækar. Upphæðin lá inni á tveimur bankareikningum í Arion banka og eru um 100 milljónir gerðar upptækar af öðrum bankareikningnum og 74 milljónir af hinum. Ástæðan fyrir lækkuninni er kostnaður af sölu bréfanna vegna afgreiðslugjalds og söluþóknunar sem nam rúmum 770 þúsund krónum og fjármagnstekjuskatts sem samkvæmt upplýsingum embættis ríkissaksóknara nam rúmum 17 milljónum.

Þessar umræddu upphæðir eru söluandvirði hlutabréfanna í Landsbankanum sem Baldur seldi í aðdraganda að hruni bankann. En eins og kunnugt er var Baldur dæmdur í dag fyrir innherjasvik með því að hafa hagnýtt sér upplýsingar sem hann fékk sem ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og með því að eiga sæti í samráðshópi um fjármálastöðugleika.

Karl Axelsson, verjandi Baldurs, vildi ekki segja eftir að dómurinn var kveðinn upp hvort það myndi stefna fjárhagslegu öryggi Baldurs í hættu að þessi upphæð yrði gerð upptæk. „Ég get ekki tjáð mig um fjárhagslega stöðu umbjóðanda míns," segir Karl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×