Viðskipti innlent

Vogunarsjóðir með gríðarleg ítök í íslensku viðskiptalífi

Magnús Halldórsson. skrifar
Vogunarsjóðir í umsjá bandaríska sjóðstýringarfyrirtækisins Davidson Kempner eru með gríðarleg ítök í íslensku viðskiptalífi, og sjóðir á vegum þess eru meðal stærstu almennu kröfuhafa í bú föllnu bankanna þriggja, Glitnis, Kaupþings og Landsbankans. Þá eiga sjóðirnir stóra óbeina hluti í mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins.

Ítarleg úttekt um fjárfestingar vogunarsjóða á vegum bandaríska sjóðstýringarfyrirtækisins Davidson Kempner mun birtast í nýrri helgarútgáfu Fréttablaðsins á morgun, en sjóðirnir hafa verið gríðarlega umfangsmiklir í kaupum á kröfum í þrotabú hinna föllnu banka, og hafa auk þess mikil ítök í íslensku viðskiptalífi í gegnum beint og óbeint eignarhald á fyrirtækjum.

Þeir eru stærsti einstaki kröfuhafi Glitnis, á meðal allra stærstu kröfuhafa Kaupþings, eiga stórar kröfur á Landsbankann, á meðal stærstu eigenda Straums fjárfestingabanka og Klakka, áður Exista, og hafa verið að kaupa upp hluti í Bakkavör Group af miklum móð, svo eitthvað sé nefnt.

Hagsmunir Davidson Kempner á Íslandi eru flestir í gegnum írskt skúffufyrirtæki, Burlington Loan Management Ltd., sem hefur fjárfest fyrir um tvo milljarða dala, tæplega 250 milljarða króna, á síðustu þremur árum. Í ársreikningnum kemur fram að 38 prósent allra fjárfestinga sjóðsins hafi verið á Íslandi. Það þýðir að hann hafi fjárfest hérlendis fyrir rúmlega 94 milljarða króna. Stærstur hluti fjárfestinga Burlington er í fjármálafyrirtækjum.

Gangi nauðasamningar Glitnis og Kaupþings í gegn líkt og stefnt er að á næstu mánuðum, og kröfum verður í kjölfarið breytt í hlutafé, mun Davidson Kempner og sjóðir þess vera beinn eða óbeinn eigandi að gríðarlega stórum hluta íslensks fjármála- og viðskiptalífs.

Ítarlega verður fjallað um umsvif Davidson Kempner á Íslandi í helgarblaði Fréttablaðsins sem kemur út með nýju útliti, á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×