Erlent

Eiturhernaður gegn 180 milljón rottum á Galapagos eyjum

Stórfelldur eiturefnahernaður er hafinn gegn rottum á Galapagos eyjum. Talið er að rottufjöldinn á eyjunum nemi um 180 milljónum.



Ætlunin er að dreifa 22 tonnum af rottueitri með þyrlum yfir tvær af Galapagos eyjunum, það er Pinzon og Plaza Sur en eyjarnar liggja í um 1.000 kílómetra fjarlægð frá Ekvador.



Rottur komu til Galapagos eyja með mönnum á sinni tíð en þær hafa valdið miklum spjöllum á dýralífi eyjanna. Til dæmis éta þær egg ýmissa sjaldgæfra dýrategunda sem þar er að finna.



Juan Carlos Gonzales sem er sérfræðingur í náttúruvernd segir að rottuplágan sé versta vandamálið á Galapagoseyjum. Í framtíðinni er ætlunin að eiturherferðin nái til allra 19 eyjanna sem mynda Galapagos eyjaklasann. Fólk býr aðeins á tveimur af þessum eyjum, það er á Santa Cruz og Isabella og verða þær síðustu eyjarnar þar sem eitrinu verður dreift.



Eitrið sem notað verður er sérhannað fyrir rottur og mun ekki skaða annað dýralíf á eyjunum tveimur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×