Körfubolti

Margrét Kara: Ég verð að taka mig saman í andlitinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Margrét Kara Sturludóttir í leiknum í kvöld.
Margrét Kara Sturludóttir í leiknum í kvöld. Mynd/Valli
Margrét Kara Sturludóttir, leikmaður KR, sagði það vera martröð líkastri að liðið væri komið í sumarfrí eftir tap gegn Haukum. Hún átti erfitt með að átta sig á því hvers vegna svo væri komið fyrir KR-liðinu.

„Við unnum fimm fyrstu leikina á tímabilinu og flestir reiknuðu kannski með of miklu. Við erum nýtt lið og hefði þurft að púsla því betur saman. Svo eru þessi meiðsli auðvitað ekki fyrirsjáanleg," sagði Kara sem sagði góð lið þó eiga að geta haldið sér á jörðinni þrátt fyrir góða byrjun á tímabilinu.

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, jafnbesti leikmaður KR og leiðtogi innan vallar sem utan, meiddist í fyrri hálfleik og spilaði ekki meir. Fyrir voru Bryndís Guðmundsdóttir og Helga Einarsdóttir meiddar.

Fyrri hálfleikur var hnífjafn en í þeim síðari var aðeins eitt lið á vellinum.

„Við byrjuðum þriðja leikhluta illa og missum dampinn í sókninni. Erica var að spila frábærlega í fyrri hálfleik og við fundum stelpurnar vel inni í teignum," sagði Kara sem benti á að Jence Rhoads hefði spilað mjög góða vörn gegn sér og haldið henni nánast utan leiksins í sókninni.

Kara var valin besti leikmaður Íslandsmótsins í fyrra en hefur átt erfitt uppdráttar í vetur. Það hefur komið körfuboltaunnendum í opna skjöldu enda hæfileikar hennar öllum ljósir.

„Ég verð að taka mig saman í andlitinu og stíga upp. Þetta er ekki alveg nógu gott," sagði Kara sár og svekkt með að vera komin í sumarfrí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×