Lífið

Það getur allt gerst í beinni

Mynd/Stefán Stefánsson
Lífið spyr Kolbrúnu Björnsdóttur á Bylgjunni í viðtali í dag meðal annars hvort hún eigi minnistæð augnablik af vandræðalegum uppá­komum í beinni útsendingu:

Ójá. Það er það skemmtilega við ­beinar útsendingar. Það getur allt gerst. Við Heimir drógum einhvern ­tímann mann of snemma inn í ­stúdíó – hann átti að vera aðeins síðar í ­þættinum. Kynntum hann inn, hátt og snjallt, og aumingjans ­maðurinn hvíslaði bara að hann væri ekki sá sem við töldum hann vera. Það var brjálæðislega fyndið. Og vandræðalegt.

Það eru til ótal dæmi af rugli hjá okkur. Og við hlæjum alltaf jafnmikið þegar við rifjum þau upp enda erum við óskaplega lítið fyrir það að taka okkur of alvarlega. Nema þegar kemur að málfarinu. Ég geri mér fyllilega grein fyrir að það er dálítið erfitt að ætla sér að tala óaðfinnanlega íslensku í þætti sem þessum, beinni útsendingu með engan fyrir fram skrifaðan texta. En mér var nánast illt í marga daga því að ég sagði MÉR langar. Mér ­langar! Það er eins gott að börnin mín heyrðu það ekki.

Svona í góðu sagt, færðu aldrei leið á Heimi? Nei, og það er eigin­lega alveg magnað. Ekki það að hann sé ekki frábær en það að vinna svona náið með einstaklingi krefst þess að fólki líki virkilega vel hvoru við annað. Hann er einn af mínum bestu vinum og ég vísa iðulega til hans sem hins mannsins í lífi mínu. Ég veit yfirleitt alltaf hvað hann er að hugsa sem kemur sér vel í útsendingu og öfugt. Þráinn getur aftur á móti gert mig brjálaða. Nei ég er að grínast, Þráinn er gullmoli. Ég á það til að knúsa hann í tíma og ótíma, bara af því að hann er hann.

Ef ekki í útvarpi – hvar þá? Ég hef ekki hugmynd um það. Eins og staðan er núna er ekkert annað sem mig langar að gera. Nema kannski vinna í verslun! Eða prjóna allan daginn. Ég væri alveg til í að prófa það í svona mánuð. Sitja og prjóna. Með kveikt á útvarpinu. Það hljómar dásamlega en er ábyggilega ekkert sérstaklega vel borgað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.