Viðskipti innlent

SpKef tapaði 50 milljörðum

Sparisjóðurinn í Keflavík (SpKef) jók innlán sín um 8,5 milljarða króna á árinu 2009. Áður höfðu þau aukist um 9,8 milljarða króna á síðustu mánuðum ársins 2008. Alls jukust þau um tæp 30 prósent frá því skömmu fyrir bankahrun og fram til loka árs 2009. Á þeim tíma uppfyllti sjóðurinn ekki lágmarkskröfur Fjármálaeftirlitsins (FME) um eigið fé og starfaði því á undanþágu. Kostnaður vegna innlánasöfnunarinnar lendir á skattgreiðendum. Alls tapaði SpKef 46,6 milljörðum króna á árunum 2008 til 2010. Þetta kemur fram í áður óbirtum drögum að ársreikningum SpKef sem Fréttablaðið hefur undir höndum.

Í drögum að ársreikningi SpKef fyrir árið 2009 kemur fram að innlán hans hafi verið orðin 63,2 milljarðar króna í lok þess árs. Þau voru 44,9 milljarðar króna um mitt ár 2008. Á sama tíma og sjóðurinn jók við innlán sín rýrnaði virði eigna hans um 17 milljarða króna auk þess sem hann greiddi um 2,3 milljarða króna í laun, launatengd gjöld og „annan rekstrarkostnað".

SpKef starfaði fram í apríl 2010 þegar nýr SpKef var settur á fót. Samkvæmt drögum að ársreikningi hans fyrir það ár tapaði sjóðurinn 11,9 milljörðum króna á því ári. Þar kemur einnig fram að allar eignir sjóðsins, „að undanskildum 100 milljónum króna, [voru] fluttar yfir til SpKef sparisjóðs". Hann tók auk þess yfir „öll almenn innlán auk skulda við Seðlabanka vegna daglána og endurhverfra viðskipta og önnur lán sem voru tryggð með veðum í yfirteknum eignum". Nýja SpKef var síðan rennt inn í Landsbankann í mars 2011.

Úrskurðarnefnd komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að íslenska ríkið eigi að greiða Landsbankanum 19,2 milljarða króna vegna yfirtöku hans á SpKef. Til viðbótar er áætlaður vaxtakostnaður vegna greiðslunnar um sex milljarðar króna auk þess sem ríkið hafði þegar lagt hinum fallna sjóði til 900 milljónir króna í eiginfjárframlag þegar hann var settur á fót. - þsj /






Fleiri fréttir

Sjá meira


×