Skoðun

Blekkingarleikur Steingríms

Kristinn H. Gunnarsson skrifar
Fyrir síðustu alþingiskosningar höfðu Vinstri grænir svör á reiðum höndum við því hvernig ætti að nýta fiskimiðin við landið svo réttlátt væri. Núna þremur árum seinna hefur svörunum verið snúið á hvolf og látið eins og kosningastefnan hafi aldrei verið til. Flokkurinn taldi vorið 2009 nauðsynlegt að breyta úthlutun kvótans í framhaldi af áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Það yrði að innkalla kvótann og endurúthluta honum eftir nýju kerfi þar sem „jafnræðis verði gætt við úthlutun afnotaréttar og aðgengi að hinni sameiginlegu auðlind" eins og segir í tillögu flokksins að nýju ákvæði í 1. grein laga um stjórn fiskveiða. Þetta er rakið í ítarlegri stefnu flokksins Hafið bláa hafið.

Nú er flokkurinn í ríkisstjórn og fer þar með sjávarútvegsráðuneytið. Formaður flokksins Steingrímur J. Sigfússon, er ráðherra málaflokksins. Hann hefur allt í hendi sér til að framfylgja stefnunni, enda hefur samstarfsflokkurinn lýst sig sammála henni. Liðlega 70% kjósenda eru sammála áformum um innköllun veiðiheimilda og endurúthlutun þeirra á jafnræðisgrundvelli og gegn markaðsverði. Það hefur enginn flokkur um áratugaskeið haft eins óumdeilt umboð þjóðarinnar til þess að framfylgja stefnu sinni í jafnveigamiklu máli. Það hefur enginn flokksformaður haft annað eins tækifæri til þess að vinna verkið sem hann bað um að fá að vinna. Það hefur aldrei verið eins skýrt hvernig kjósendur vildu að leyst yrði úr langvarandi deilumáli.

Þá bregður svo við að Steingrímur snýr við blaðinu. Nú skulu 95% af kvótanum verða áfram til a.m.k. næstu 20 ára hjá þeim sem hafa haft hann hingað til. Jafnræðið er gleymt, en einokunin og misréttið eiga að vera áfram. Það sorglega er að enginn stöðvaði Steingrím nema hann sjálfur. Flokkurinn hefur verið talinn standa fyrir hugsjónir umfram hagsmunagæslu. Annað er komið á daginn. Hagsmunir útgerðarvaldsins sem beitir saklaust fólk refsiaðgerðum í skjóli einokunar sinna á veiðiheimildum eru teknir fram fyrir hag almennings. Þessi blekkingarleikur í sjávarútvegsmálum á eftir að draga dilk á eftir sér. Traust á forystu ríkisstjórnarinnar og flokka þeirra mun fylgja þverrandi virðingu þeirra fyrir eigin fyrirheitum.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×