Skoðun

Hamingjan og Íslendingar

Hrefna Guðmundsdóttir skrifar
Það er oft dregin upp sú mynd að það séu pálmatré, hengirúm og sólarströnd sem séu lykillinn að hamingjunni, en ekki hrímkaldur myrkvaður vetrarmorgunn á hjara veraldar eins og við þekkjum. Rannsóknir styðja þó hins vegar að hamingjuna virðist frekar vera að finna á norðlægum stöðum heldur en þegar nær dregur miðbaug.

Tæplega er það eingöngu vegna veðursins heldur gæti ég trúað að svarið liggi frekar í menningu þeirra landa sem mælast hamingjusömust. Happ í hugtakinu happiness kemur úr íslensku. Happ merkir reyndar lukka en hugtakið hamingja þykir hafa dýpri merkingu. Hamingjuna er erfitt að skilgreina, helst hefur hún verið skilgreind sem ákveðið hugarástand s.s. sátt, þakklæti, sæla, farsæld eða einhverskonar afleiðing af réttri breytni.

Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að við Íslendingar mælumst með hamingjusömustu þjóðum í heimi. Dæmi um slíkar rannsóknir finnast víða, t.d. hjá Ruut Veenhoven, University of Rotterdam (sjá http://worlddatabaseofhappiness.eur.nl), Gallup rannsóknir og Eurobarometer, og rannsóknir hjá Landlæknisembættinu (sjá hjá Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttur og http://www2.lydheilsustod.is/frettir/afstofnuninni/nr/2827). Ruut Veenhoven hefur verið ötull mælingarmaður á hamingjuna og hefur einfaldlega beðið fólk með jafnvel einni spurningu að meta líf sitt á bilinu 1 – 10, því hærri tala, eftir því sem þú telur þig, því hamingjusamari. Hann telur sig vera að mæla hamingjutilfinningu sem er djúpstæðari en hér og nú, því er mikil fylgni milli tölunnar sem við nefnum viku eftir viku.

Það er athyglisvert að hann fær aldrei það viðkvæði að svarandi skilji ekki spurninguna, en hann hefur spurt fólk um nánast allan heim í hinum ólíklegustu menningarsamfélögum. Við mældumst hæst í hamingjunni sem þjóð árið 2003, eða með 8,3. Mældumst 7,8 árið 2008 og 2009. Í dag er meðalhamingja þjóða 6,0 skv. Ruut Veenhoven (2011). Danir mældust í nýjustu könnuninni 8,5 sem er ein hæsta mæling þjóðar sem sést hefur. Nú getur hver sem er velt því fyrir sér, hvaða einkunn hann gefur sjálfum sér á þessum mælingarkvarða, einnig er áhugavert að bæta þá við spurningunni „hvað er það sem þú getur sjálf/ur gert til að talan hækki um 0,5?".

Það er spennandi að skoða hvað einkennir samfélög þar sem mikil almenn hamingja mælist. Traust er afar mikilvægt og sú tilfinning að tilheyra samfélagi. Því hefur hingað til verið tekið af kaldhæðni hversu hamingjusöm við hér á landi mældumst. Hér er talsverð lyfjataka og þunglyndi mælist víða svo ekki sé nefnt efnahagslega hrunið og hvað stjórnsýslan er götótt. En ef við rýnum í aðstæður okkar má kannski segja að við höfum hingað til haft fulla ástæðu til að mælast hamingjusöm. Atvinnuleysi hefur ekki verið ríkjandi vandamál sl. áratugi þar til nú og mælist atvinnuleysið hjá okkur þó lægra en víða í Evrópu. Hér eru sterk fjölskyldu- og félagstengsl. Gott aðgengi að menntun og góð heilbrigðisþjónusta hefur fylgt okkur lengi. Vissulega er breytt landslag eftir hrun, en við höfum þó ennþá grundvöll til að hér ríki almenn farsæld og hamingja. Hamingja Íslendinga virðist hafa minnkað til muna við nýjustu mælinguna og ekki kæmi á óvart að það væri ekki síður vegna trausts í samfélaginu og trú á réttlátt samfélag fyrir alla heldur en að það sé skortur á peningum. Fylgni við peninga er klárlega til staðar ef við höfum ekki í okkur og á, en þegar við höfum „nóg", eru það klárlega aðrir þættir sem mælast í meiri fylgni við hamingjuna heldur en peningar.

Rannsóknir hafa jafnvel sýnt litla fylgni, stundum neikvæða og stundum enga milli peninga og hamingju. Það eru mannleg samskipti, virkni, þátttaka, jákvætt viðhorf, þakklæti og það að láta gott af sér leiða sem gerir okkur hamingjusöm. Kyrrseta og aðgerðarleysi eykur óhamingju. Vertu lítið einn með sjálfum þér, taktu þátt í félagsstörfum eða sjálfboðaliðastörfum viljir þú vera hamingjusamur.

Bretar og fleiri þjóðir hafa sett á laggirnar sérstakar stofnanir til að mæla almenna hamingju og til að þróa hamingjuvísitölu, sem beri að nota samhliða hagvaxtarvísitölunni, þ.e. er gengið til góðs fram á veg. Þetta er eitthvað sem væri skemmtilegt viðfangsefni hér á landi.

Í lokin vil ég segja frá því að það er til félag um jákvæða sálfræði og upplýsingar um félagið má m.a. finna á fésbókinni. Heimasíða félagsins mun birtast með haustinu, en til bráðabirgða má finna upplýsingar á: http://jasalar.wikispaces.com/home. Félagsmenn eru áhugafólk og fagfólk sem hefur áhuga á heilbrigði og farsæld og vill fræðast um jákvæða sálfræði og hamingjufræði, nýir félagar eru velkomnir.




Skoðun

Sjá meira


×