Veiði

Veiðin í Norðurá loks kominn yfir 900 laxa

Hér fylgjast menn spenntir með því þegar Bjarni Júlíusson, formaður SVFR, tók fyrsta lax sumarsins í Norðurá þann 5. júní.
Hér fylgjast menn spenntir með því þegar Bjarni Júlíusson, formaður SVFR, tók fyrsta lax sumarsins í Norðurá þann 5. júní. Mynd / Trausti Hafliðason
Norðurá er komin yfir 900 laxa sem þýðir að veiðin er ekki jafnslæm og árin 1984 og 1989. Veiðin er aftur á móti sú versta síðan netaveiði í Hvítá var aflögð í kringum 1990. Þetta má lesa á vef Stangaveiðifélags Reykjavíkur.

„Holl sem lauk veiðum í Norðurá í Borgarfirði í hádeginu í dag landaði 54 löxum. Fékk hópurinn ána í sjatnandi vatni eftir miklar rigningar. Með þessari prýðisgóðu veiði fór Norðurá yfir 900 laxa markið og því er ljóst að áin skilar meiri veiði en verstu árin á níunda áratugnum. Þó verður að hafa hugfast að veiðin nú stefnir í að vera sú slakasta frá því að netaveiði var aflögð í Hvítá í Borgarfirði upp úr 1990.

Sumrin 1984 (856 laxar) og 1989 (867 laxar) eru verstu veiðisumur síðari ára í Norðurá en bæði þessi ár var umtalsverður hluti laxagöngunnar tekinn í net í jökulvatninu. Þó skal hafa hugfast að á móti kemur að veitt var á blandað agn í Norðurá á þessum sumrum en nú er eingöngu brúkuð fluga í Norðurá."

Á vef SVFR segir að árnefnd Norðurár hafi hafið veiðar í hádeginu í dag en nefnin lokar ánni formlega.

„Því er ljóst að sumarveiðin þetta árið mun verða á bilinu 900-1.000 laxar sem er afleit veiði sé miðað við aflatölur undanfarna tvo áratugi. En nú er þetta laxveiðitímabil að baki í Norðurá og unnendur hennar geta látið sig hlakka til næsta sumars sem verður svo miklu betra en þetta!" segir á vef SVFR.

trausti@frettabladid.is






×