Innlent

Aftur hægt að senda ókeypis sms

BBI skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni.
Nú er aftur orðið ókeypis að senda smáskilaboð á netinu því fyrir rétt rúmri viku opnaði heimasíðan Skiló.is. Þar má senda sms til allra símakerfa endurgjaldslaust.

Fólk reyndist heldur betur hafa beðið eftir þjónustu af þessum toga því fréttirnar spurðust hratt út á netinu og á einni viku hefur síðunni verið flett yfir 13 þúsund sinnum.

„Fólk er alveg að missa sig yfir þessu," segir Edwin K Ben, einn af þeim sem stendur bakvið síðuna. „Það er verið að nota síðuna frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Spáni, Noregi, Svíþjóð, Lúxumburg og svo framvegis. Það kostar náttúrlega helling að senda sms heim til Íslands frá New York. En nú er þetta bara frítt."

Eftir að síðan ja.is lokaði á þá þjónustu að senda ókeypis sms hefur nánast ekki verið í boði að senda sms á netinu. Það hefur verið mögulegt á heimasíðum símafyrirtækjanna en þá aðeins innan kerfis. „Við erum ekki með neina svona fordóma. Bara frítt fyrir alla. Vessogú," segir Edwin.

Edwin útskýrir að þeir þurfi að greiða fyrir hvert sms sem sent er af síðunni. Starfsemin er fjármögnuð með auglýsingum á síðunni. „Við erum bara að vona það að fólk og fyrirtæki taki vel í þetta. Umferðin er orðin það mikil að fyrirtæki eru farin að veita þessu eftirtekt. Þetta er auðvitað ágætis staður til að auglýsa fyrir ákveðna markhópa," segir hann.

Að sögn Edwin hafa ótrúlegustu aðilar tekið síðuna í sína þjónustu. „Við höfum heyrt af því að heilsugæslustöðvar séu að nota þetta til að minna á tíma og fleira," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×