Erlent

Brú Ólafs Elíassonar orðin að dómsmáli í Kaupmannahöfn

Bygging reiðhjólabrúar í Kaupmannahöfn sem hönnuð var af Ólafi Elíassyni er orðin að máli fyrir héraðsdómi í borginni.

Brúin á að liðka fyrir umferð reiðhjólafólks frá miðborg Kaupmannahafnar til Christianshavn yfir Christianshavn Kanal og áfram út á Holmen. Ólafur var fenginn til að hanna þessa brú en bygging hennar er borguð af Nordeasjóðnum.

Það er einn af íbúum Christianshavn, Anders Zorn að nafni, sem höfðar málið þar sem hann segir brúna vera brot á deiliskipulagi fyrir þennan borgarhluta. Brúin sé mun stærri og umfangsmeiri en sú göngubrú sem skipulagið gerir ráð fyrir. Þar að auki sé búið að breyta þessari einföldu göngubrú í stóra reiðhjólabrú með 25 metra háum víramöstrum og útskotum þar sem gangandi og hjólandi geta hvílt sig og notið útsýnisins.

Lögmaður Zorn spyr í samtali við Politiken hvort nokkur hafi áður séð göngubrú sem er 25 metrar á hæð.

Zorn hefur áður kært byggingu brúarinnar til umhverfisyfirvalda en án árangurs. Bygging brúarinnar er langt komin en taka á hana í notkun á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×