Menning

Að verksmiðjuvæða lífið

Ófeigur Sigurðsson rithöfundur
Ófeigur Sigurðsson rithöfundur
Landvættir eru þriðja skáldsaga Ófeigs Sigurðssonar, sem sló í gegn með sinni síðustu bók, Skáldsögunni um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma, sem byggði á bréfum Jóns Steingrímssonar eldklerks.

Fyrir hana hlaut Ófeigur einróma lof gagnrýnenda og Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins árið 2011.

Landvættir gerast okkur mun nær í tíma en Skáldsagan um Jón, á tíunda áratug síðustu aldar, en var skrifuð á undan þeirri síðarnefndu. Hér segir frá Sókratesi, ungum manni sem hefur ratað í blindgötu í lífinu og er orðinn alræmdur maður af síðum Dagblaðsins þegar hann fær vinnu í kjötvinnslu á Kjalarnesi, Flesk og síðu. Þar er tekið á móti honum af höfðingsskap og hlýju og forframast hann fljótt innan fyrirtækisins. Fortíðin eltir hann hins vegar upp metorðastigann.

Verksmiðjan sem samfélag

Bókin byggir að hluta til á eigin reynslu höfundarins, sem vann í kjötvinnslu Síldar og fiskjar skömmu fyrir aldamót.

„Eftir að fyrsta skáldsaga mín, Áferð, kom út 2005 fór ég strax að hugsa um nýtt efni. Þá birtist mér þessi kjötvinnsla, þar sem ég vann í kringum tvítugt. Ég sá hana sem afluktan heim, fasta veröld, sem mér fannst kjörið sem umgjörð eða að minnsta kosti upphaf að skáldsögu.

Ég hef oft verið latur til vinnu og fannst áhugavert að rýna í vinnusamfélagið í verksmiðjunni. Ég hafði verið settur í það að leysa af verkstjóra á sínum tíma og lærði á undraskömmum tíma á allt ferli verksmiðjunnar. Ég set söguhetjuna í þessar áhrifastöður, hverja á eftir annarri og bregð þannig ljósi á anatómíu kjötvinnslunnar, sem er hægt að nota til að spegla samfélagið sem við búum í; hvernig svona lokuð verksmiðja virkar sem samfélag og í rauninni fjölskylda líka. Í upphafi bókarinnar er líf Sókratesar hrunið til grunna en í verksmiðjunni finnur hann allt sem hann leitar að; öryggi, yfirsýn, fjölskyldu. Einkalíf hans yfirfærist á verksmiðjuna.

En þótt ég byggi bókina lauslega á eigin reynslu er sagan ekki ævisöguleg; ég nota ákveðna punkta úr raunveruleikanum, þar á meðal skírskotanir í vissa atburði, færi þá í heim skáldskaparins og vinn með þá þar. Undirliggjandi er líka ádeila á verksmiðjubúskap, svoleiðis bú eru ekkert annað en útrýmingarbúðir fyrir dýr og framleiðsla á dauða.“

Kominn út í vegkant

Ófeigur byrjaði á bókinni 2006 og lauk upphaflegu handriti árið 2008 en eftir að hafa fengið hverja neitunina á fætur öðrum hjá útgefendum var hann svo til búinn að gefa hana upp á bátinn – og jafnvel rithöfundarferilinn í leiðinni.

„Bókin var mun suddalegri en hún er núna – og þykir sumum samt nóg um. Ég gekk lengi með þetta handrit og vann mikið í því en enginn vildi gefa það út. Ég var kominn svolítið út í vegkant með það og minn feril; það leit út fyrir að mér myndi ekki takast að verða rithöfundur.“

Þá kom Jón eldklerkur til bjargar. Ófeigur lýsir því hvernig hann hafi orðið eins og andsetinn af hugmyndinni, hann sat við skriftir sextán tíma á dag og linnti ekki látum fyrr en hann hafði lokið við bókina ári síðar. Í kjölfarið tók hann sér stutt hlé frá skriftum en dustaði þá rykið af Landvættum, meðal annars að áeggjan ritstjóra síns hjá Forlaginu, Silju Aðalsteinsdóttur.

„Ég læddist hálfpartinn aftur að henni, frekar óttasleginn en varð síðan býsna ánægður með það sem ég hélt að yrði ekki ánægður með. Það var svo mikill sprengikraftur í efninu að bókin átti til að fara í allar áttir en þegar ég byrjaði á henni aftur tókst mér að koma sögunni á réttan kjöl og halda ákveðinni stefnu.“

Ófeigur lætur söguna gerast á tíunda áratugnum, sem honum finnst hafa einkennst af síðiðnbyltingardraumum um að beisla náttúruna og verksmiðjuvæða lífið til að ná utan um það.

„Í verksmiðju hefurðu yfirsýn yfir ferlið frá upphafi til enda, getur gripið hvar sem er inn í og breytt öllu. Þú ert með guðlega stjórn. Þetta var hugsun sem mér fannst ríkjandi og átti að keyra á þjóðfélagið allt í lok aldarinnar: að verksmiðjuvæða lífið og náttúruna. Á móti þessu stóðu veikar, fyrirlitnar raddir sem tóku afstöðu með náttúrunni og því að hlutirnir fengju að hafa sinn gang. En þótt bókin gerist á þessum tíma þá tel ég hana enn eiga erindi. Það eru enn sterk öfl í samfélaginu sem standa fyrir verksmiðjugildin. Á hinn bóginn virðast þessi viðhorf eldast með þjóðinni og vera komin kynslóð ofar; þau virka að minnsta kosti forneskjulegri en þau gerðu.“

Í kappi við bifvélavirkja

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan enginn vildi gefa Landvætti út og Ófeigur efaðist um feril sinn, enda segist hann finna tilfinnanlegan mun á stöðu sinni.

„Já, ég er aðeins vissari um að ég geti verið rithöfundur. Ég held annars að rithöfundar séu almennt það illa staddir, ekki bara launalega heldur líka með sína sjálfsmynd, að þeir þurfa sífellt að vera að sannfæra sjálfa sig. Kjötiðnaðarmaður er bara kjötiðnaðarmaður; það er fast og þú ert með skírteini upp á það. En það virkar einhvern veginn hjákátlegt að veifa bókum eins og skírteini.

Frá mínum bæjardyrum séð er eins og rithöfundar þurfi sífellt þurfa að vera sannfæra sjálfa sig um að þeir séu þess verðir að vera rithöfundar. Það er einhver skrítin ára eða mystík yfir þessari starfsgrein; eins og fólk sé útvalið til að verða rithöfundar. Það eru svo rosalega margir sem gera tilraun til þess en tekst það ekki. Manni finnst það þess vegna mikil forréttindi að vera rithöfundur en glímir um leið við sektarkennd, því manni finnst það í rauninni varla vera „starf“. Maður reynir því að vera byrjaður klukkan átta á morgnana, eins og allir hinir sem halda hjólum efnahagslífsins gangandi. Ég er alltaf að bera mig saman við hinn almenna vinnumann. Það er mjög hvetjandi að hérna á móti er bílaverkstæði; þar vinna þeir mjög mikið, stundum langt fram á kvöld og ég er í stöðugu kappi við þá.“

Þótt Ófeigur semji skáldskap hefur hann áður sagt að öðrum þræði sé hann alltaf að skrifa sjálfsævisögu tilfinningalífsins. Það vekur þess vegna athygli að bæði í Jóni og Landvættum lenda söguhetjurnar í því að vera hafðar fyrir rangri sök.

„Ætli það eigi ekki rót í ótta mínum við sterk öfl í samfélaginu og hvernig raunveruleikinn er notaður. Þegar sterk öfl móta raunveruleikann er svo erfitt að breyta honum; hann verður að næstum óhagganlegum sannleika og enginn fær rönd við reist. Það stoðar lítið að tuða og tauta og reyna að grafa undan því. Kannski byggir þetta bara á ótta mínum við raunveruleikann.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×