Tónlist
Gabríel mætir í Vasadiskó
Hversu mikið segir tónlistarsmekkur um persónuleika einstaklings? Einhverjar vísbendingar við svari þeirrar spurningar fást á sunnudag þegar hinn dularfulli tónlistarmaður Gabríel mætir í útvarpsþáttinn Vasadiskó á X-inu 977. Gabríel, gaf nýverið út sitt þriðja lag, Gleymmérey, og hefur í kjölfarið samþykkt að mæta til spjalls í þættinum. Þangað mætir hann með sitt eigið vasadiskó (mp3 spilara) og sett verður á shuffle. Þau lög sem koma gætu hugsanlega gefið einhverjar vísbendingar um persónu mannsins á bakvið grímuna. Ýmsar vangaveltur hafa verið á kreiki um hver Gabríel sé í raun og veru. Þó svo að engar tilraunir verði gerðar á sunnudag til þess að opinbera nafn hans verður kannski hægt að fá hann til að afneita einhverjum af þeim sögusögnum sem eru í gangi. Fylgist með Vasadiskó á Fésbókinni. Þátturinn verður í beinni útsendingu á sunnudag á milli kl. 15 - 17.