Innlent

Enn ósamið um síld og kolmunna

demantssíld Árgangar síðustu ára gefa ekki tilefni til bjartsýni á að veiðar aukist í bráð. mynd/hermann
demantssíld Árgangar síðustu ára gefa ekki tilefni til bjartsýni á að veiðar aukist í bráð. mynd/hermann
Fundi um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, sem haldinn var 14. desember, lauk án árangurs. Um var að ræða framhaldsfund strandríkja vegna stjórnunar veiða úr stofninum á árinu 2013. Boðað verður til annars fundar um miðjan janúar. Þessi niðurstaða þýðir enn fremur að samkomulag um stjórn veiða úr kolmunnastofninum á árinu 2013 er ekki í höfn.

Á vettvangi Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) eru í undirbúningi reglur sem koma í veg fyrir veiðar annarra þjóða úr þessum stofnum á alþjóðlegu hafsvæði á meðan ósamið er.

Fyrir tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012 var leyfilegur heildarafli íslenskra skipa um 120 þúsund lestir. Í október í fyrra náðist samkomulag um að heildaraflinn yrði 833.000 tonn árið 2012. Niðurstaða strandríkjanna þá var í fullu samræmi við vísindaráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) og þá langtímastjórnunaráætlun sem sett hefur verið, en það var 16% lækkun milli ára.

Árgangar undanfarinna ára hafa verið minni en á tímabilinu 1998 til 2004, þegar sterkir árgangar komu inn í stofninn. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×