Skoðun

Fræðsla á milli menningarheima

Aðgengi að þekkingu er í dag orðið auðveldara en nokkru sinni áður og allt virðist í nokkurra smella fjarlægð. Innihaldsríkasta leiðin til að kynnast öðrum menningarheimum og læra ný tungumál er þó að mínu mati enn í gegnum eigin upplifun. Þá einstæðu upplifun hefur AFS á Íslandi boðið upp á í 55 ár.

Það er hreint út sagt ótrúlegt að vakna með nýtt og framandi tungumál í eyrunum, sækja skóla í landi sem þú hafðir áður einungis séð á landakorti og fá tækifæri til að öðlast skilning á ólíkri menningu frá fyrstu hendi. Finna þig í aðstæðum sem þú hélst að væru eingöngu til í kvikmyndum.

Að sama skapi er það einstök tilfinning að fá að vera hluti af reynslu nýs fjölskyldumeðlims sem sækir Ísland heim. Hluti af reynslu erlends skiptinema sem fer í sund til að spjalla við pottverja á íslensku eftir einungis nokkra mánuði á landinu. Skiptinema sem tekur sig til og syngur afmælissönginn af innlifun í afmælum fjölskyldumeðlima á tungumáli sem þú hafðir aldrei heyrt áður.

Tilgangur AFS er og hefur ávallt verið að stuðla að fræðslu á milli menningarheima og aðstoða þannig einstaklinga við að þróa þá þekkingu, hæfni og skilning sem þarf til að skapa réttlátari og friðsælli heim. Þetta er starf sem byggir að mestu leyti á framlagi sjálfboðaliða.

Eykur víðsýni og skilning

Fyrir nokkrum árum var gerð umfangsmikil könnun við Háskólann í Reykjavík um áhrif skiptináms AFS á ungmenni. Í samantekt lokaritgerðar um niðurstöðurnar kemur fram að skiptinám hafi „mikið gildi til frambúðar fyrir þá sem utan fara; tungumálakunnátta þeirra er mun meiri en samanburðarhópsins og gildir það ekki aðeins um þekkingu á tungumáli dvalarlandsins; viðhorf þeirra til útlendinga er jákvæðara og skilningur á framandi menningarheimum, siðum, venjum og gildum þroskaðri en hinna sem ekki fóru."

Skiptinemadvöl á vegum AFS er því ekki einungis spennandi og öðruvísi lífsreynsla heldur einnig öflug óformleg menntun um aðra menningarheima sem nýtist sem ómetanlegt veganesti inn í framtíðina. Það er ekki eftir neinu að bíða – ég hvet þig til að kynna þér starf AFS nánar á vef okkar, afs.is.




Skoðun

Sjá meira


×