Enski boltinn

Lygileg endurkoma hjá Henry | Tryggði Arsenal 1-0 sigur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Thierry Henry.
Thierry Henry. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það var söguleg stund á Emirates-vellinum í Lundúnum í kvöld þegar að Thierry Henry tryggði Arsenal 1-0 sigur á Leeds í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar.

Henry er nýgenginn til liðs við Arsenal á ný en hann er lánsmaður frá New York Red Bulls. Hann lék síðast með Arsenal árið 2007 og er markahæsti leikmaður í sögu félagsins. Nýverið var reist stytta af honum fyrir utan leikvanginn.

Hann kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik í kvöld og tók sér aðeins tíu mínútur til að skora markið með hnitmiðuðu skoti í vítateignum eftir góða sendingu frá Alex Song.

Henry fagnaði markinu vel og innilega og stuðningsmenn Arsenal gengu nánast af göflunum af fögnuði. Það er skiljanlegt enda Henry goðsögn í þeirra augum og atburðir kvöldsins eins og úr Hollywood-kvikmynd.

Hann var svo hylltur vel og lengi eftir leik af stuðningsmönnum Arsenal og reyndar Leeds líka. Það var greinilega ekki annað hægt en að hrífast með.

Leikurinn hafði annars verið tíðindalítill en Mikael Forssell komst svo reyndar nálægt því að jafna metin fyrir Leeds seint í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×