Enski boltinn

Mark Hughes líklegastur til að taka við QPR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark Hughes.
Mark Hughes. Mynd/Nordic Photos/Getty
Heiðar Helguson og félagar í Queens Park Rangers eru án knattspyrnustjóra eftir að Neil Warnock var rekinn frá félaginu í gær. BBC segir frá því í dag að Mark Hughes sé líklegasti eftirmaður Warnock.

Það hefur lítið gengið hjá Queens Park Rangers síðustu vikur og liðið er nú komið niður í 17. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. QPR var í 9. sæti 19. nóvember síðastliðinn. Heiðar sá síðan til þess að liðið datt ekki út úr enska bikarnum þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við MK Dons um helgina.

Mark Hughes hefur verið atvinnulaus síðan að hann hætti með Fulham í júní en auk hans hefur Ítalinn Gianfranco Zola einnig verið orðaður við starfið hjá Queens Park Rangers.

Neil Warnock var ekki sá eini sem tók pokann sinn því aðstoðarþjálfarinn Mick Jones og aðalliðsþjálfarinn Keith Curle eru líka farnir frá félaginu. Það þykir benda til þess að nýr maður sé klár í bátana.

Nýr stjóri Queens Park Rangers mun fá pening til að styrkja liðið í janúarglugganum en liðið þarf tilfinnanlega á hjálp að halda eftir að hafa leikið átta leiki í röð án þess að ná að vinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×