Enski boltinn

Manchester United ekki í vandræðum með Tottenham

Stefán Árni Pálsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Manchester United vann nokkuð öruggan 3-1 sigur á Tottenham en leikurinn fór fram á White Hart Lane í London. Ashley Young átti frábæran leik fyrir United og gerði tvö mörk. Rooney kom rauðu djöflunum á bragðið með fyrsta marki leiksins.

Leikurinn hófst nokkuð rólega og liðin voru nokkuð varkár til að byrja með. Tottenham var samt sem áður meira með boltann og stjórnaði gangi leiksins. Leikmenn Manchester United áttu í erfileikum með að finna taktinn.

Emmanuel Adebayor, leikmaður Tottenham, náði að koma boltanum í netið um miðjan fyrri hálfleik en markið var réttilega dæmt af þar sem Adebayor tók boltann með höndinni. Þetta kveikti greinilega á viðvörunarbjöllum Manchester United og liðinu óx ásmegin næstu mínúturnar.

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiksins náðu gestirnir í United að skora fyrsta mark leiksins. Luis Nani tók frábæra hornspyrnu sem hafnaði á kollinum á Wayne Rooney og þaðan fór boltinn í netið. Staðan var því 1-0 fyrir ensku meistarana í hálfleik.

Tottenham hóf síðari hálfleikinn betur rétt eins og þann fyrri en það virtist ekki skipta neinu máli. United komst í 2-0 þegar um korter var liðin af hálfleiknum. Luis Nani komst upp að endamörkum og gaf fína fyrirgjöf inn í teiginn sem endaði hjá Ashley Young. Hann þrumaði boltanum í netið.

Ótrúlegur leikur í raun þar sem Tottenham hafði verið sterkari aðilinn alveg frá byrjun. Um tíu mínútum síðar var Young aftur á ferðinni þegar hann hamraði boltanum í netið fyrir utan teig - alveg óverjandi fyrir Brad Friedel í marki Tottenham.

Jermaine Defoe náði að minnka muninn fyrir Tottenham rétt fyrir leikslok með fínu marki en það kom of seint. Manchester United eltir því Manchester City eins og skugginn en liðið er með 64 stig og er aðeins tveimur stigum á eftir City. Tottenham er sem fyrr í þriðja sætinu með 53 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×