Enski boltinn

Zlatan hafnaði Arsenal fyrir tólf árum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Zlatan Ibrahimovic segist hafa hafnað tækifæri til að æfa með Arsenal þegar hann var enn að spila með æskufélagi sínu, Malmö í Svíþjóð.

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hafði samband við Zlatan árið 2000 með það fyrir augum að ræða við hann um möguleg vistaskipti til Lundúna.

„Arsene gaf mér þessa frægu Arsenal-treyju, númer níu og með nafnið mitt á bakinu," sagði Zlatan í samtali við The Sun. „Ég var svo ánægður að ég lét taka mynd af mér í henni."

„Þetta var frábær stund fyrir mig. Arsenal var með frábært lið á þessum tíma og ég fékk mína eigin Arsenal-treyju sem hafði verið sérstaklega gerð fyrir mig."

„Svo beið ég eftir því að hann myndi sannfæra mig um að koma til Arsenal. En hann reyndi ekki einu sinni. Það var ekkert tilboð, bara boð um að koma á reynslu og æfa með liðinu."

„Ég bara trúði þessu ekki. Ég sagði að það væri ekki glæta - Zlatan fer ekki á reynslu. Annað hvort þekkti hann mig eða ekki og ef hann þekkti mig ekki hafði hann í raun ekki raunverulegan áhuga á að fá mig."

Ibrahimovic fór þess í stað til Ajax og hefur síðan þá sspilað með Juventus, Inter, Barcelona og nú AC Milan.

AC Milan vann 4-0 sigur á Arsenal í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á dögunum og hann skoraði þrennu á aðeins fjórtán mínútum er AC Milan vann Palermo í gær, 4-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×