Enski boltinn

Southampton marði sigur á seinheppnu liði Leeds

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ricky Lambert.
Ricky Lambert. Nordic Photos / Getty Images
Southampton vann 1-0 útisigur á Leeds á Elland Road í síðdegisleiknum í Championship-deildinnií gær. Markahrókurinn Ricky Lambert skoraði eina mark leiksins í leik sem Leeds átti frá upphafi til enda.

Neil Warnock, knattspyrnustjóri Leeds, stýrði liði sínu í fyrsta sinn á heimavelli og gat verið ánægður með sína menn þrátt fyrir úrslitin. Leikmenn Leeds sóttu frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu, sköpuðu sér fjölmörg færi en inn vildi boltinn ekki.

Kelvin Davis, fyrirliði og markvörður Southampton, varði allt sem á markið kom en í tvígang björguðu marksúlurnar gestunum. Lærisveinar Nigel Adkins fögnuðu Davis vel í leikslok enda ljóst hver hafði séð fyrir stigunum þremur.

Eina mark leiksins kom á 16. mínútu þegar Ricky Lambert skoraði úr eina færi liðsins í leiknum. Markið kom eftir fallega sókn þar sem Lambert tók boltann á lofti í teignum og setti hann óverjandi í netið.

Lambert hefur farið á kostum undanfarin tvö ár með Southampton. Hann raðaði inn mörkunum í fyrra er liðið tryggði sér sæti í Championship deildinni. Hann heldur uppteknum hætti í ár og er markahæstur með 20 mörk.

Danny Webber kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik í sínum fyrsta leik fyrir Leeds. Hann fékk þrjú góð færi en líkt og liðsfélögum hans tókst honum ekki að troða boltanum yfir línuna.

Southampton hefur fjögur stig í forskot á toppi deildarinnar. West Ham, sem er í öðru sæti, mæti Cardiff í Wales á morgun.

Leeds situr áfram í 10. sæti deildarinnar eftir tapið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×