Erlent

Vilja að Rússar styðji vopnahlé í Sýrlandi

skemmdir á húsum Hús skemmdust í átökum í Damaskus aðfaranótt mánudags, í hverfi þar sem sendiráð og stjórnarbyggingar eru og starfsfólk þeirra býr. nordicphotos/afp
skemmdir á húsum Hús skemmdust í átökum í Damaskus aðfaranótt mánudags, í hverfi þar sem sendiráð og stjórnarbyggingar eru og starfsfólk þeirra býr. nordicphotos/afp
Rauði krossinn hefur beðið Rússa um að hafa milligöngu um tveggja tíma vopnahlé daglega í Sýrlandi. Talsmenn Rauða krossins segja Rússa hafa tekið vel í málið.

Rauði krossinn hefur ekki fengið leyfi frá stjórnvöldum í Sýrlandi til þess að fara með hjálpargögn á öll stríðshrjáð svæði í landinu. Þau hafa ekki heldur samþykkt tveggja tíma vopnahléið sem Rauði krossinn leggur til. Rússar eru hins vegar meðal fárra bandamanna stjórnvalda í Sýrlandi og er talið að þeir geti haft áhrif. Tíminn yrði notaður til að koma hjálpargögnum til bágstaddra.

Hörð átök brutust út í höfuðborginni Damaskus aðfaranótt gærdagsins og heyrðist í handsprengjum og hríðskotabyssum að sögn íbúa. Átökin voru í grennd við höfuðstöðvar öryggislögreglunnar og hefur það ekki gerst áður.

Öflug bílasprengja sprakk í borginni Aleppo á sunnudag og varð að minnsta kosti þremur að bana. Daginn áður höfðu sprengingar valdið manntjóni í höfuðborginni. Stjórnvöld segja uppreisnarmenn bera ábyrgð á sprengjunum. Uppreisnarmenn saka hins vegar stjórnvöld um að setja sprengjuárásirnar á svið til að draga úr trúverðugleika uppreisnarinnar. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×