Enski boltinn

Manchester United sló granna sína í City út úr enska bikarnum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Rooney fagnar í dag.
Rooney fagnar í dag.
Manchester-liðin mættust í 3. umferð enska bikarsins á City of Manchester vellinum í dag. Þeir rauðklæddu náðu að innbyrða góðan sigur, 3-2, í hreint mögnuðum leik en Manchester United var 3-0 yfir í hálfleik en heimamenn gáfust aldrei upp. City kom til baka í þeim síðari og skoruðu tvö mörk en það dugði ekki til og því féllu bikarmeistararnir úr leik.

Það bárust svakaleg tíðindi í herbúðum Manchester United rétt fyrir leik þegar í ljós kom að Paul Scholes hefði tekið þá ákvörðun að taka fram skóna á ný. Scholes byrjaði leikinn á varamannabekknum en átti eftir að koma við sögu.

Gestirnir komust yfir eftir tíu mínútna leik þegar Wayne Rooney skallaði boltann í netið alveg óverjandi fyrir Costel Pantilimon í marki City. Útlitið var enn dekkra fyrir Manchester City tveim mínútum síðar þegar Vincent Kompany fékk beint rautt spjald fyrir tveggja fóta tæklingu á Nani. Heldur strangur dómur en Kompany kom aldrei við Nani.

Danny Welbeck skoraði annað mark Manchester United eftir hálftímaleik en markið var stórglæsilegt. Welbeck var aftur á ferðinni tíu mínútum síðar þegar hann fiskaði vítaspyrnu. Rooney fór á punktinn en Pantilimon varði spyrnuna, Rooney náði aftur á móti frákastinu og skallaði boltann í netið. Staðan var því 3-0 fyrir gestina í hálfleik og útlitið virkilega svart fyrir heimamenn.

Síðari hálfleikurinn hófst með miklum látum og það tók heimamenn aðeins þrjá mínútur að minnka muninn. Aleksandar Kolarov skoraði fínt mark og opnaði leikinn á ný. Sergio Agüero skoraði síðan annað mark City á 64. mínútu og allt í einu var komin gríðarlega spenna í Manchester.

Lengra komst Manchester City ekki og United því komið áfram í enska bikarnum. Bikarmeistararnir í Manchester City hafa lokið keppni í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×