Handbolti

Kári tryggði jafntefli á móti Pólverjum | Guðjón Valur með 13 mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Kristjánsson.
Kári Kristjánsson. Mynd/Stefán
Íslenska karlalandsliðið í handbolta gerði 31-31 jafntefli á móti Póllandi í kvöld í fyrsta undirbúningsleiknum sínum fyrir EM í Serbíu. Þetta var jafnframt fyrsti leikur landsliðsins á fjögurra þjóða æfingamóti, Total Kredit Cup, sem fram fer í Danmörku um helgina.

Línumaðurinn Kári Kristjánsson skoraði jöfnunarmarkið af miklu harðfylgni eftir flottan endasprett íslenska liðsins en Pólverjinn Karol Bielecki átti síðan sláarskot úr aukakasti í lokasókn leiksins.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 13 mörk fyrir íslenska liðið og var langmarkahæstur. Aron Pálmarsson skoraði fimm mörk og þeir Kári og Alexander Petersson voru með fjögur mörk hvor. Krzysztof Lijewski skoraði 7 mörk fyrir pólska liðið og Karol Bielecki var með 5 mörk.

Pólska liðið var með frumkvæðið frá byrjun leiks og var 17-11 yfir í hálfleik. Íslenska liðið lék mun betur í seinni hálfleiknum og náði hægt og rólega að vinna upp muninn. Pólverjar voru með þriggja marka forskot þegar fimm mínútur voru eftir en íslenska liðið vann lokamínúturnar 5-2.

Þetta var fyrsti opinberi landsleikur liðsins síðan að liðið vann 44-29 sigur á Austurríki í júní og tryggði sér sæti á EM í Serbíu. Íslenska liðið spilaði reyndar við pressuliðið í byrjun nóvember.

Ísland mætir Slóveníu á morgun og spilar síðan við Dani á sunnudaginn. Liðið mætir síðan Finnum í Laugardalshöllinni eftir viku sem verður síðasti æfingaleikur liðsins fyrir EM í Serbíu.



Ísland-Pólland 31-31 (11-17)

Mörk Íslands: Guðjón Valur Sigurðsson 13, Aron Pálmarsson 5, Kári Kristjánsson 4, Alexander Petersson 4, Arnór Atlason 2, Ingimundur Ingimundarson 1, Ásgeir Örn Hallgrímsson 1, Róbert Gunnarsson 1.

Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 6 í fyrri hálfleik og Hreiðar Leví Guðmundsson 7 í seinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×