Enski boltinn

Áfall fyrir Everton - Jagielka frá í sex vikur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Phil Jagielka skorar hér á móti Wigan.
Phil Jagielka skorar hér á móti Wigan. Mynd/Nordic Photos/Getty
Everton varð fyrir miklu áfalli þegar kom í ljós að varnarmaðurinn Phil Jagielka muni missa úr næstu fimm til sex vikurnar vegna meiðsla á hné. Hinn 29 ára gamli Phil Jagielka hefur glímt við hnémeiðsli áður en hann meiddist enn á ný í tapleiknum á móti Bolton í vikunni.

„Jags tognaði á liðbandi í hnénu. Það er ótrúlegt mikið mál fyrir okkur að missa hann á þessum tímapunkti því við höfum náð undanfarið að vera sterkir varnarlega ," sagði David Moyes, stjóri Everton.

„Hvort sem að Jagielka hafi spilað með Sylvain Distin eða John Heitinga þá hefur það gengið mjög vel. Það er mikið áfall fyrir okkur að missa hann því hann er lykilmaður varnarinnar og mjög mikilvægur fyrir okkar lið," sagði Moyes.

Moyes greindi líka frá því að Leon Osman sé tæpur vegna meiðsla á hné og að þeir Tim Cahill, Ross Barkley og Jack Rodwell hafi allir verið að glíma við meiðsli.

Everton er eins og er í 11. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en tapið á móti Bolton var það eina hjá liðinu í síðustu fimm deildarleikjum. Bolton vann þarna 2-1 sigur á Everton og varð fyrsta liðið síðan í byrjun nóvember (í 9 leikjum) til að skora meira en eitt mark hjá Phil Jagielka og félögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×