Viðskipti innlent

Sjóðir eiga helming krafna í bú Glitnis

Þórður skrifar
Slitastjórn Glitnis hélt fund fyrir kröfuhafa sína í gær þar sem farið var yfir fjárhagsstöðu búsins. Þar var líka gerð grein fyrir því hverjir væru 50 stærstu kröfuhafar þess. Steinunn Guðbjartsdóttir og Páll Eiríksson mynda slitastjórn Glitnis.fréttablaðið/Pjetur
Slitastjórn Glitnis hélt fund fyrir kröfuhafa sína í gær þar sem farið var yfir fjárhagsstöðu búsins. Þar var líka gerð grein fyrir því hverjir væru 50 stærstu kröfuhafar þess. Steinunn Guðbjartsdóttir og Páll Eiríksson mynda slitastjórn Glitnis.fréttablaðið/Pjetur
Vogunarsjóðir og aðrir fjárfestingasjóðir eiga um helming allra krafna á Glitni. Verði nauðasamningur bankans samþykktur og kláraður munu þeir eiga meirihluta í eignarstýringafélaginu sem stofnað verður á grunni hins fallna banka. Á meðal eigna þess verður Íslandsbanki. Þetta má lesa út úr skrá yfir 50 stærstu samþykktu kröfuhafa Glitnis sem birt var á kröfuhafafundi bankans í gær. Fréttablaðið hefur skrána undir höndum.

Samkvæmt skránni hefur mikil samþjöppun átt sér stað í eignarhaldi á kröfum á Glitni á síðustu tveimur árum. Sumarið 2010 áttu fimmtíu stærstu kröfuhafar bankans 60,4 prósent allra krafna. Nú eiga þeir fimmtíu stærstu 79,5 prósent krafnanna, en alls nema samþykktar kröfur í búið 2.263 milljörðum króna.

Rúmlega þrjátíu sjóðir, að mestu vogunarsjóðir, eiga samtals 47,9 prósent allra krafna á hinn fallna banka. Þeir hafa aukið hlut sinn mjög mikið á undanförnum tveimur árum. Verði nauðasamningur Glitnis samþykktur, og margir minni kröfuhafar borgaðir út, mun eignarhlutur þessara sjóða vaxa nægilega mikið til að þeir verði meirihluti eigenda Glitnis. Auk þess eiga íslenskir bankar, sem annaðhvort eru í slitameðferð eða eru í eigu þrotabúa, 10,8 prósent krafna. Margir vogunarsjóðanna sem eru á meðal stærstu kröfuhafa Glitnis eiga líka kröfur á þessa banka og verða á meðal eigenda þeirra ef fram fer sem horfir.

Erlendir bankar, sem upphaflega voru stærstu kröfuhafar bankans, eiga nú um 20,3 prósent krafna. Tæplega 3.000 aðrir almennir kröfuhafar eiga síðan samtals 20,5 prósent.

Nokkrir vogunarsjóðir hafa verið mjög duglegir við að sanka að sér kröfum á Glitni á undanförnum árum. Á meðal tíu stærstu kröfuhafa bankans eru nú sjóðir á borð við CCP Credit Acquisition Holdings (4,61 prósent krafna), Silver Point Luxemburg Platform (4,14 prósent krafna) Owl Creek Investments (3,08 prósent krafna) og ACMO (2,79 prósent krafna). Samtals er nafnvirði krafna þessara sjóða 331 milljarður króna.






Tengdar fréttir

Burlington langstærsti eigandinn

Burlington Loan Management, írskt skúffufyrirtæki sem er fjármagnað og stýrt af bandaríska sjóðstýringarfyrirtækinu Davidson Kempner, er langstærsti einstaki kröfuhafi Glitnis. Alls á Burlington 8,46 prósent allra samþykktra krafna. Heildarumfang krafna sjóðsins er 191 milljarður króna. Sjóðurinn hefur bætt duglega við sig á síðustu tveimur árum. Um mitt ár 2010 átti hann 5,6 prósent allra krafna á Glitni, samtals upp á 142 milljarða króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×