Kólumbíumaðurinn Radamel Falcao tryggði Atlético Madrid sigur í Evrópudeildinni og sér sérkafla í sögu keppninnar þegar hann skoraði tvö mörk í 3-0 sigri Atlético Madrid á Athletic Bilbao í uppgjör tveggja spænskra liða í úrslitaleik Evrópudeildarinnar sem fram fór í Búkarest í kvöld.
Falcao vann Evrópudeildina þar með annað árið í röð en hann skoraði sigurmark Porto í úrslitaleiknum í Dublin í fyrra. Bæði árin hefur Falcao einnig verið markakóngur keppninnar en hann skoraði 12 mörk í 15 leikjum í Evrópudeildinni á þessu tímabili.
Þetta er í annað skiptið á þremur árum sem Atlético Madrid vinnur Evrópudeildina en liðið vann 2-1 sigur á Fulham í úrslitaleiknum í Hamborg árið 2010. Atlético Madrid vann tólf síðustu leiki sína í keppninni í ár.
Falcao kom Atlético Madrid í 1-0 strax á 6. mínútu leiksins með góðu skoti utarlega úr vítateignum eftir að hafa fengið alltof mikinn tíma í teignum.
Falcao bætti síðan við öðru marki á 34. mínútu eftir flotta sókn og sendingu frá Arda Turan. Falcao fékk boltann í teignum, snéri sér laglega ala Johan Cryuff og skoraði af öryggi.
Diego innsiglaði síðan 3-0 sigur Atlético Madrid fimm mínútum fyrir leikslok eftir laglegt einstaklingsframtak þar sem hann labbaði í gegnum vörn Bilbao.

