Sport

NFL samdi við dómarana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Útlit er fyrir að tími hinna umdeildu varadómara í NFL-deildinni vestanhafs sé liðinn, þar sem samtök NFL-dómara tilkynntu í nótt að samkomulag væri í höfn við deildina í kjaradeilu þess.

Fjórða umferð tímabilsins hefst í kvöld með viðureign Cleveland og Baltimore Ravens og hefur NFL-deildin nú staðfest að „alvöru" NFL-dómarar munu starfa við leikinn.

Leikmenn og þjáfarar hafa lýst ánægju sinni með þetta enda hefur frammistaða varadómaranna verið afar umdeild. Vitleysan náði hámarki þegar að þeir dæmdu snertimark ranglega gilt sem tryggði Seattle sigur á Green Bay aðfaranótt þriðjudags.

„Amma mín heima í stofu hefði sennilega dæmt þetta rétt," sagði Boris Cheek, einn þeirra NFL-dómara sem hafa verið verkfalli, í samtali við bandaríska fjölmiðla í gær.

Það er líklega engin tilviljun að samkomulag sé í höfn nú enda varð íþróttin að athlægi í áðurnefndum leik. Barack Obama Bandaríkjaforseti lét sig meira að segja málið varða og sagði að það væri löngu tímabært að fá gömlu, góðu dómarana aftur.

Samkomulagið sem nú er í höfn muna vera til næstu átta ára og er það lengsti samningur dómara við NFL-deildina frá upphafi. Samkomulagið þarf nú að öðlast samþykki meirihluta félagsaðila.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×