Innlent

Ályktun um Píkusafn er satíra

„Ályktuninni fylgir mikil alvara. En hún er til komin vegna hugmyndar bæjarstjórnar um villidýrasafn, sem okkur finnst fáránleg. Það var spurning um að toppa vitleysuna," segir Kristín Pálsdóttir, ritari Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ.

Flokkurinn samþykkti ályktun í vikunni um að láta reisa Píkusafn í bænum, í anda Reðasafnsins. Að sögn bæjarfulltrúa Íbúahreyfingarinnar var ályktunin þó meira ádeila en nokkuð annað.

„Þetta er ekki á stefnuskránni hjá okkur, en þetta er bráðsniðug hugmynd," segir Jón Jósef Bjarnason bæjarfulltrúi. Í ályktuninni segir meðal annars: „Ónefnt sláturhús hefur þegar veitt vilyrði fyrir fimm gimbrapíkum, fullunnum til sýningar." Kristín segir þetta vera hluta af satírunni sem ályktunin sé. „Þetta er háðsádeila," segir hún. „Á maður að fylgja leikreglum eða á maður stundum líka að prófa eitthvað pönk?"

Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti í ágúst að láta reisa villidýrasafn í bænum. Íbúahreyfingin vill lýðræðislega íbúakosningu um málið áður en lengra er haldið. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×