Viðskipti innlent

Lífeyrissjóður verzlunarmanna kaupir stóran hlut í Eimskip

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur gengið frá kaupum á 14 prósenta hlut í Eimskipi af slitastjórn Landsbankans og bandaríska fyrirtækinu Yucaipa á rúmlega 5 milljarða króna. Kaupin gætu styrkt Eimskip fyrir skráningu í Kauphöll Íslands í haust.

Eimskip rann í faðm kröfuhafa sinna eftir hrunið en stærstu hluthafar þessa stærsta skipafyrirtækis landsins eru í dag slitastjórn Landsbankans, sem fer með 37 prósenta hlut og bandaríska fyrirtækið Yucaipa sem á 32 prósenta hlut, sem það eignaðist 2009 eftir að Eimskip fór í gegnum fjárhagsalega endurskipulagningu.

Undanfarna mánuði hafa fjárfestar sett sig í samband við þessa aðila með fyrirhuguð kaup á hlutabréfum í Eimskip í huga.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa viðræður meðal annars staðið yfir við Lífeyrissjóð verzlunarmanna og hafa þessar viðræður nú borið ávöxt.

Samkvæmt heimildum sem fréttastofa metur traustar hefur lífeyrissjóðurinn nú náð samkomulagi um kaup á 14 prósenta hlut í Eimskip af þessum aðilum, slitastjórn LÍ og Yucaipa og er kaupverðið rúmlega 5 milljarðar króna. Ekki liggur fyrir hvernig bréfin skiptast milli Yucaipa og slitastjórnar Landsbankans.

Ekki er útilokað að Eimskip sé enn vænlegra en áður fyrir skráningu með traustan fjárfesti eins og einn stærsta lífeyrissjóð landsins í hluthafahópnum. Þá má gera ráð fyrir að verðmæti eignarhlutar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna aukist strax í haust ef skráning félagsins gengur vel.

Miðað við þetta kaupverð er heildarverðmæti Eimskipafélagsins 36 milljarðar króna. Og því hefur verðmæti þess aukist verulega á undaförnum þremur árum.

Telja má fullvíst að þau bréf sem seld verða í Eimskip í haust í Kauphöllinni komi frá slitastjórn Landsbankans og Yucaipa, en Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur fjárfest í íslensku atvinnulífi sem langtímafjárfestir eftir hrun.

Þeir sem standa nálægt þessum aðilum, þ.e seljendum og kaupendum, vildu ekki láta neitt hafa eftir sér um viðskiptin í dag. En samkvæmt upplýsingum fréttastofunnar stendur til að tilkynna formlega um viðskiptin eftir helgi. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×