Innlent

Boðið upp á rútuferðir yfir Krossá

Krossá.
Krossá.
Laugavegsmaraþonið verður haldið í sextánda sinn laugardaginn 14. júlí og af því tilefni munu staðarhaldarar í Húsadal ásamt Ársæli Haukssyni bifreiðastjóra hjá South Coast Adventure bjóða upp á aukaferðir yfir Krossá frá kl. 12 á hádegi og fram eftir degi.

Ferðirnar eru viðbót við áætlun Kynnisferða sem fer þrjár ferðir yfir Krossá á dag. Ferðir yfir Krossá eru varasamar og er þetta gert til að tryggja öryggi þeirra sem koma í Húsadal til að fylgjast með og taka á móti þátttakendum í Laugavegsmaraþoninu.

Ferðin kostar kr. 1.000 á mann aðra leið. Jeppafært er að Krossá um hálendisveg nr. F249 og hægt að leggja bílum við bakka Krossár þaðan sem boðið er upp á ferðir. Þeir sem ekki eru á jeppum geta tekið rútu Kynnisferða frá BSÍ kl 8:00 eða Seljalandsfossi kl 10:50.

Ekki er þörf á því að panta miða. Nokkuð hefur verið um að vegfarendur hafi fest bíla sína í Krossá í sumar og þó engin slys hafa orðið á fólki. Tjón á bifreiðum og farangri getur hlaupið á hundruðum þúsunda króna og mikil hætta getur skapast þegar bílar festast í ánni. Staðarhaldarar í Húsadal beina því tilmælum til þeirra sem leið eiga í Húsadal í Þórsmörk um helgina sem aðra daga að nýta áætlunarferðir og aðstoð við að komast yfir Krossá.

Laugavegsmaraþonið er haldið í sextánda sinn þar sem hlaupin er 55 kílómetra leið yfir Laugaveginn á milli Landmannalauga og Húsadals í Þórsmörk. Um 350 íslenskir og erlendir hlauparar eru skráðir til þátttöku í ár og búast má við spennandi keppni. Metið í karlaflokki á Þorbergur Ingi Jónsson sem hljóp þessa leið á tímanum 4:20:32 árið 2009 en í kvennaflokki á Helen Ólafsdóttir metið og hljóp á tímanum 5:21:12 árið 2010. Á hverju ári ganga þúsundir ferðamanna yfir Laugaveginn en flestir fara þessa leið á þremur til fimm dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×