Skoðun

Það besta fyrir þjóðarlíkamann?

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson skrifar
Fari svo að fræðimaðurinn, Dr. Ólafur Ragnar Grímsson, vinni forsetakosningarnar á laugardaginn verður það sögulegur sigur. Ekki er hægt að stinga því undir stól. Segjum að það verði raunin. Þá mun Ólafur sitja til ársins 2016, eða alls 20 ár. Þá verður Ólafur Ragnar 74 ára og íslenska lýðveldið 72 ára.

Þetta þýðir að þá verður Ólafur Ragnar Grímsson búinn að vera forseti 27% af lýðveldistímanum. Það þýðir einnig að þá verður vaxin úr grasi kynslóð sem þekkir ekkert annað en Ólaf Ragnar Grímsson á forsetastóli.

Stjórnmálafræðingurinn Ólafur Ragnar Grímsson segir sig vera talsmann lýðræðisins og sér í lagi beins lýðræðis, með þáttöku almennings. Hann hefur beitt málsskotsákvæði stjórnarskrár Íslands tvisvar og er því kominn í „æfingu“ með það, ef þannig má að orði komast.

Hann hefur talað um stór samfélagsmál sem hann telur vel koma til greina að að setja í þjóðaratkvæði. Það liggur því eiginlega fyrir að þjóðaratkvæðagreiðslur verði enn algengari en nú er með Ólaf Ragnar sem forseta. Kostnaður við hverja þjóðaratkvæðagreiðslu hleypur á hundruðum milljóna króna.

Hann telur líka að hann þurfi að vera einskonar öryggisventill til að koma í veg fyrir að slæmir hlutir komi fyrir Íslendinga. Og hann bregður fyrir sig fínum fræðilegum orðum á borð við „þjóðarlíkami“ og vísar þá til þess að samfélagið sé eins og líkami, þar sem allir hlutarnir þurfi að virka, til þess að heildin virki.  Þetta er beint úr fræðum Herberts Spencer og Emile Durkheim og tilheyrir klassískum félagsfræðikenningum.

Ég velti því bara fyrir mér hvort hin mikla seta Ólafs á forsetastóli sé það besta fyrir umræddan „þjóðarlíkama“? Sérstaklega í ljósi þess að öll kerfi þurfa ákveðna endurnýjun til að þau virki sem best. Ekki síst stjórnmálakerfin.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×