Innlent

Ögmundur braut jafnréttislög - réð karl en ekki konu sem sýslumann

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson braut jafnréttislög þegar hann tók karl fram yfir konu í embætti sýslumanns á Húsavík. Þetta kom fram í fréttum RÚV í kvöld. Þar segir að kærunefndin jafnréttismála hafi komist að þeirri niðurstöðu að konan væri hæfari en karlinn í fjórum hæfnisþáttum af átta og jafnhæf í þremur.

Kærunefndin hefur úrskurðað að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hafi brotið jafnréttislög þegar hann skipaði karl í embætti sýslumannsins á Húsavík í lok síðasta árs. Kona sem sótti um var ýmist talin jafn-hæf eða hæfari en karlinn að undanskyldu einu atriði.

Ögmundur Jónasson skipaði Svavar Pálsson í embætti sýslumanns á Húsavík. Einn umsækjandinn, Halla Bergþóra Björnsdóttir settur sýslumaður á Akranesi, kærði ákvörðunina. Sýslumenn landsins eru að miklum meirihluta karlar og ef umsækjendur eru jafnhæfir skal ráða þann af því kyni sem er í minnihluta.

Áslaug Árnadóttir, lögmaður Höllu Bergþóru, segir úrskurðinn býsna afdráttarlausan: „Niðurstaða kærunefndarinnar er sú að sá sem skipaður var í starfið sé svona jafnvel hæfari en umbjóðandi minn í einum þætti. Þau standi jafnfætis í þremur en að umbjóðandi minn hafi verið hæfari þeim sem skipaður var í fjórum af þessum átta þáttum."

Þetta er annar ráðherrann í núverandi ríkisstjórn sem brýtur gegn jafnréttislögum. Áður hefur Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra verið dæmd brotleg við lögin.

Hægt er að lesa nánar um málið á vef RÚV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×