Enski boltinn

Berbatov floginn til Ítalíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dimitar Berbatov.
Dimitar Berbatov. Mynd/Nordic Photos/Getty
Dimitar Berbatov flaug til Ítalíu í morgun til þess að ganga frá samningi við ítalska félagið Fiorentina samkvæmt heimildum Reuters. Berbatov hefur samið um kaup og kjör og verður væntanlega tilkynntur sem nýr leikmaður Fiorentina seinna í dag.

Dimitar Berbatov á sér ekki framtíð hjá Manchester United þar sem hann hefur spilað síðan að Sir Alex Ferguson gerði hann að dýrasta leikmanni í sögu félagsins árið 2008 en United keypti hann á 30,75 milljónir punda frá Tottenham.

Berbatov er orðinn 31 árs gamall en fékk fá tækifæri í fyrra eftir að hafa orðið markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar tímabilið á undan. Dimitar Berbatov skoraði alls 48 mörk í 108 úrvalsdeildarleikjum með United.

Þegar Ferguson keypti Robin Van Persie frá Arsenal varð endanlega ljóst að Berbatov væri ekki að fara spila neitt á Old Trafford í vetur og því fór hann að leita sér að nýju félagi.

Berbatov verður bara fjórði Búlgarinn til þess að spila í ítölsku A-deildinni en hinir eru: Valeri Bojinov (Lecce, Fiorentina, Parma – 2001-02, 2003–06, 2009–12), Nikolay Iliev (Bologna – 1989-91) og Hristo Stoichkov (Parma – 1995-96).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×