Innlent

Fundað með Samtökum fjármálafyrirtækja um vaxtadóm

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Helgi Hjörvar er formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Helgi Hjörvar er formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. mynd/ anton brink.
Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, gerir ráð fyrir að nefndin muni funda með Samtökum fjármálafyrirtækja í fyrramálið til að fara yfir stöðu mála eftir vaxtadóminn sem Hæstiréttur kvað upp á miðvikudag. Samkvæmt dómnum máttu lánastofnanir ekki rukka lántaka um seðlabankavexti fyrir gengistryggð lán fyrir þann tíma sem liðinn var áður en lánin voru dæmd ólögleg.

„Ég reikna með því að við byrjum á því að ræða við Samtök fjármálafyrirtækja og reyna að fá fram hvernig þeir geri ráð fyrir að bregðast við þessu," segir Helgi Hjörvar. Eftir að viðbrögð hafi verið fengin þaðan verði leitað eftir sjónarmiðum annarra.

Helgi segir ljóst að enn séu ákveðnum spurningum ósvarað. Dómurinn hafi fyrst og fremst svarað spurningum sem snúa að þeim sem voru í skilum með greiðslur. Þá sé ósvarað spurningum um þá sem ekki voru í skilum. „Eiga þeir ekki sama rétt?" spyr Helgi. Svo sé það spurning um þá sem létu frysta lán og gerðu það jafnvel eftir tilmæli frá yfirvöldum. Svör við þessum spurningum fáist ekki nema í prófmáli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×