Tónlist

Þrjú hundruð hitta goðsögn

„Við erum búnir að reyna að fá hann í mörg ár og loksins hafðist það," segir Sindri Már Heimisson, framkvæmdastjóri Hljóðfærahússins.

Búist er við hátt í þrjú hundruð íslenskum tónlistaráhugamönnum í Austurbæ á laugardaginn þar sem trommuleikarinn Steve Gadd leikur á trommur og miðlar af reynslu sinni. Kvöldið áður spilar Gadd með James Taylor á tónleikum í Hörpu.

Að sögn Sindra Más hefur hingað til verið dýrt að fá Gadd til landsins en þegar kom í ljós að hann myndi spila með Taylor á Íslandi samþykkti hann að vera með. „Fyrst ætlaði hann ekki að nenna en setti síðan upp tölu sem hann hefur eflaust búist við að við myndum hafna. Við stukkum á það," segir Sindri og bætir við að verðið hafi verið viðráðanlegt, sérstaklega af því að ekki þurfti að borga fyrir hann flugfar til Íslands.

Gadd er lifandi goðsögn sem hefur leikið með Eric Clapton, Paul Simon, Sting, B.B. King, Paul McCartney, Weather Report og fleiri heimsþekktum flytjendum. „Þetta er stór viðburður, ekki bara fyrir trommara heldur alla tónlistaráhugamenn," segir Sindri. „Eins og Jóhann Hjörleifsson [trommari Sálarinnar] sagði þá er þetta eins og fyrir kirkju að fá Jesú í heimsókn. Þetta er tvímælalaust sá núlifandi trommari sem er á toppnum í „legend"-deildinni."- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.